Fer ennþá á United leiki þó hann sé orðin kona

Kastljós
 · 
Leiklist
 · 
Menningin
 · 
Menningarefni

Fer ennþá á United leiki þó hann sé orðin kona

Kastljós
 · 
Leiklist
 · 
Menningin
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
06.01.2017 - 13:40.Davíð Roach Gunnarsson.Menningin, .Kastljós
„Þó að manneskja skipti um kyn er hún ennþá sama manneskjan. Pabbi minn fer ennþá á United leiki þó hann sé orðinn kona,“ segir Hannes Óli Ágústsson leikari, sem leikur í einleiknum Hún Pabbi sem er frumsýndur í Borgarleikhúsinu í kvöld.

Leikritið stendur Hannesi Óla mjög nærri en það byggir á reynslu föður hans, sem kom út úr skápnum sem transkona 57 ára og lauk kynleiðréttingarferli þremur árum síðar.

Hannes Óli segist aldrei hafa verið feiminn að tala um kynleiðréttingu föður síns. „En það tók tíma að finna réttan tón fyrir sýninguna. Ég og pabbi höfum aldrei áður rætt mikið saman á persónulegum nótum. Í undirbúningsferlinu spurði ég hann út í alls konar hluti sem ég vissi ekki, opnaði á fullt af gleði og sársauka, og er nánari pabba eftir á.“

Þær Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Kara Hergils unnu leikgerðina sem þær segja ekki hafa verið auðvelt verk. „Það var frekar ógnvænlegt að takast á við þetta. Engin af okkur í hópnum er trans, þannig við þurftum að stíga varlega til jarðar. Við erum kannski frekar mikið að skoða hans sögu, feðgasambönd hafa verið vinsæll efniviður í íslenskum bíómyndum og skáldskap, þetta er svona feðgasaga með tvisti,“ segir Halla Þórlaug.

Morgunútvarpið ræddi við Höllu Þórlaugu og Köru.

Kara segir að þrátt fyrir að umræðan um transfólk hafi opnast mikið á undanförnum árum eigi samfélagið ennþá langt í land. „Eftir að við byrjuðum á rannsóknarvinnu fyrir leikritið blöskraði mér eigin fáfræði. Það er líka svo mikið af fólk sem gerir sér ekki grein fyrir að það eru komin miklu fleiri kyn, og kynin eru meira flæðandi.“

Halla Þórlaug og Kara segja það algengt að aðstandendur transfólks fari í hálfgert sorgarferli þegar sannleikurinn komi loksins í ljós, þeir upplifi að þeir hafi verið að missa einhvern. Það hafi þó ekki verið svo dramatískt hjá Hannesi Óla sem hafi tekið fregnunum af talsverðri yfirvegun. „Svo við vildum ekki yfirkeyra dramatíkina í leikritinu. Við notumst mikið við dægurmenningu, Hannes Óli er bíónörd og persóna hans sér sjálfan sig oft í gegnum poppmenningu. Svo er þetta engin sorgarsaga og margt fyndið í þessu.“