Fengu ekki lykla hjá lögreglu vegna vímu

Nærmynd af merki lögreglunnar með einkennisorðunum "Með lögum skal land byggja".
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Rétt fyrir klukkan sex í gærkvöld kom maður inn á lögreglustöðina á Dalvegi í Kópavogi. Hann var mættur til þess að sækja bíllykla sem voru í vörslu lögreglu. Lögreglumönnum þótti sterk kannabislykt vera af manninum og spurðu hann hvort hann hefði einhver fíkniefni á sér.

Maðurinn framvísaði þá ætluðum fíkniefnum til lögreglu og var málið afgreitt á staðnum. Um hálftíma síðar hafði lögregla afskipti af ökumanni bifreiðar sem var að koma að sömu lögreglustöð. Sá var kominn til þess að sækja sömu lykla, en var stöðvaður af lögreglu grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Bíllyklarnir liggja enn ósóttir hjá lögreglu.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV