Félagslegar leiguíbúðir dýrari en áætlað var

14.12.2016 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Ríkið þarf að verja 2,7 milljörðum króna í stofnframlög til uppbyggingar um 500 leiguíbúða á árinu. Það er 1,2 milljörðum meira en gert var ráð fyrir.

Alþingi samþykkti í fjárlögum síðasta árs að verja 1,5 milljarði króna í stofnframlög til þeirra sem byggja upp leiguíbúðir. Þetta er hluti af nýju félagslegu leiguíbúðakerfi sem tilkynnt var um í fyrra til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði. Markmiðið var að byggja 2300 íbúðir á fjórum árum með árlegum framlögum úr ríkissjóði sem samanlagt skyldu nema 6 milljörðum króna. Byggðar yrðu 500-600 íbúðir á ári. 

Nú liggja fyrir samþykktar umsóknir um framlög þessa árs og fyrir liggur að framlögin þarf að hækka um 1,2 milljarða króna í ár til að koma til móts við þau framlög sem sveitarfélögin veita til byggingar eða kaupa á 450 íbúðum. Þetta kemur fram í minnisblaði sem félags- og húsnæðismálaráðherra lagði fyrir ríkisstjórn í gær. Skýringin sem gefin er á þessari miklu hækkun framlaga er fyrst og fremst tvíþætt. Annars vegar hafi Alþingi hækkað hámarksframlög ríkis og sveitarfélaga þegar lög um almennar íbúðir voru þar til meðferðar. Hins vegar er íbúðaverð helmingi hærra en reiknað hafði verið með. Vega þar þyngst hærra lóðarmat, stærð og staðsetning húsnæðis og bílastæði eða bílskýli sem eru tekin með í kostnaði. Samkvæmt minnisblaðinu er því óskað eftir 1,2 milljörðum aukalega á fjáraukalagafrumvarpi ársins.

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV