„Fátækt er ekki aumingjaskapur“

18.03.2017 - 11:16
Samkvæmt tölum frá Velferðarráðuneytinu búa 1,3 prósent Íslendinga við sárafátækt. Það er ekki ýkja há tala en á bak við hana leynast þó rúmlega 4.000 manns. Margir hverjir eru fastir í fátæktargildru og hafa enga undankomuleið.

Rithöfundurinn Mikael Torfason hefur eytt síðustu átta mánuðum í að taka viðtöl við fátækt fólk og fólk sem er eða hefur verið við fátæktarmörk. Í útvarpsþáttunum Fátækt fólk veltir Mikael upp ýmsum spurningum; Hversu fordómafull erum við gagnvart fátækum? Eiga fátækir að skammast sín? Er skömm að vera fátækur?

Ásta Dís Guðjónsdóttir er formaður Sjálfsbjargar á Höfuðborgarsvæðinu og samhæfingarstjóri „Pepp“, sem er nokkurs konar stuðningshópur fyrir þá sem búa við fátækt og bága fjárhagsstöðu. Félagsskapurinn vinnur gegn fátækt og félagslegri einangrun með því að hvetja fólk til að koma á fundi, sættast við að þurfa að sækja sér hjálp og vinna að lausnum á opinberum vettvangi.

Fordómar gagnvart fátækum

Ásta kannast vel við fordóma fyrir að vera ekki aðeins einstæð móðir, heldur fátæk ofan á allt saman. Það hafi hjálpað henni mikið að geta leitað til mæðrastyrksnefndar á sínum tíma en það hafi verið erfitt skref að stíga. „Mér þykir erfitt að hugsa til þess enn í dag að leggja sjálfsmatið niður fyrir eigin siðferðisþröskuld, til þess að fara og biðja um aðstoð. Þetta er miklu stærra skref en nokkur getur ímyndað sér sem ekki hefur reynt það sjálfur.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ásta Dís Guðjónsdóttir

Margir sem búið hafa við fátækt hafa náð að vinna sig út úr þeim aðstæðum með dugnaðinn að vopni. Aðrir sitja fastir í fátæktargildru og hafa jafnvel hvorki líkamlega né andlega getu til að komast úr henni. „Það eru ekki allir félagsmenn hér sem geta unnið, margir búa einir og eru á strípuðum bótum. Þetta er fólk sem hefur engin tækifæri til að auka við tekjur en hafa útgjöld eins og allir aðrir,“ segir Ásta.

Raunverulegt fólk með væntingar og drauma

„Það er talað um að sex prósent Íslendinga séu undir einhverjum fátæktarmörkum og að eitt komma þrjú prósent búi við sára fátækt. Þetta hljómar ekkert eins og þetta séu margir. Þetta er voða falleg tala, hún er ósköp lág. En á bak við þetta er fólk, raunverulegt fólk með væntingar, vonir, drauma, þrár, sem getur kannski ekki leyst út lyfin sín. Þetta er bara háalvarleg staða,“ segir Ásta.

Þegar nánar rýnt er í þessa tölfræði kemur í ljós að yfir fjögur þúsund manns búa við sárafátækt hér á landi. „Þetta er ekkert grín. Það velur sér enginn að vera fátækur. Fátækt er ekki aumingjaskapur. Við búum við kerfi sem er þannig byggt upp að það eru í því fátæktargildrur. Það eru skorningar og gil sem fólk dettur ofan í og situr fast. Þessar fátæktargildrur gera það að verkum að þú kemst ekkert upp úr þeim að sjálfsdáðum," segir Ásta.

Annar þáttur Fátæks fólks, í umsjón Mikaels Torfasonar, var fluttur á Rás 1 í dag. Hægt er að hlusta á þættina í heild í Sarpinum eða sækja þá í hlaðvarpi RÚV.