Fasteignaverð hækkað um 13,6% á einu ári

22.11.2016 - 10:41
Mynd með færslu
Í Hafnarfirði. Mynd úr safni.  Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 13,6% síðustu 12 mánuði. Þetta eru mestu hækkanir á fasteignaverði á einu ári frá 2007.

Sérbýli hækkað meira en fjölbýli

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans en útreikningarnir eru byggðir á gögnum frá Þjóðskrá. Fasteignaverð hækkaði um 2% frá september til október. Sérbýli hefur hækkað meira en fjölbýli síðustu mánuði.  Á undanförnum sex mánuðum hefur sérbýli hækkað um 10,6%, en fjölbýli um 8,6%. Ef litið er lengra aftur í tímann hefur raunverð á fjölbýli hækkað um 50% síðan 2011, en á sérbýli um 30%. Fram kemur í Hagsjánni að sala á íbúðum í fjölbýli er svipuð í ár og í fyrra en viðskipti með sérbýli hafa verið líflegri.

Mikill munur á sölu nýrra íbúða

Hlutfall nýrra íbúða af viðskiptum hefur verið mjög mismunandi eftir sveitarfélögum, langlægst í Reykjavík en langhæst í Garðabæ. Einungis 2% fasteignaviðskipta í Reykjavík í ár hafa verið með nýjar íbúðir á móti 40% í Garðabæ.

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV