Farsímasamband í Vestfjarðagöngum

15.05.2017 - 13:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Komið hefur verið á farsímasambandi í Vestfjarðagöngum sem liggja undir Breiðadals- og Botnsheiði á norðanverðum Vestfjörðum. Göngin voru opnuð árið 1996 en þar hefur ekki verið símasamband fyrr en nú.

Samfélagsábyrgð að koma á sambandi

Við gerð Vestfjarðaganga var ekki gert ráð fyrir farsímasambandi en þar næst þó Tetra-samband sem gagnast lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitum en fyrir almenning hefur einungis verið neyðarími inni í göngunum. Samkvæmt Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa Símans, þá hefur lengi staðið til að setja upp sendi í göngunum. Það hefur þó ekki verið gert fyrr vegna kostnaðar. Í samstarfi við Vegagerðina, sem leggur til lagnir um göngin og rafmagn, var þó ákveðið að ráðast í verkið nú. Það sé hluti af samfélagsábyrgð Símans. Á hverju ári sé settur upp sendir á útvöldum, fáförnum stöðum.

Einungis viðskiptavinir Símans

Eins og er eru einungis viðskiptavinir Símans sem eru með fullt farsímasamband í göngunum. Ekki hafa verið gerðir samningar milli Símans og annarra símafyrirtækja. Viðskiptavinir annarra fjarskiptafélga geta þó hringt í 112 um þennan sendi „svo hann nýtist öðrum í neyð, sem er vel,“ segir Gunnhildur Arna.

Í Bolungarvíkurgöngum um Óshlíð er farsímasamband sem nýtist öllum vegna reikisamninga farsímafyrirtækjanna. Gunnhildur segir að Síminn komi til með að skoða það með opnum huga að vera einnig með sendi í fyrirhuguðum Dýrafjarðargöngum.

 

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV