Fær enn ekki akstursþjónustu frá Vesturbyggð

07.07.2016 - 12:25
Vesturbyggð Patreksfjörður
Patreksfjörður Vesturbyggð þjónusta stofnanir
 Mynd: Jóhannes Jónsson
Rúmlega áttræð kona í Vesturbyggð fær enn ekki akstursþjónustu fyrir fatlað fólk þrátt fyrir áralangar óskir. Vesturbyggð synjaði konunni á sínum tíma um akstursþjónustu á þeim forsendum að ekki hafi viðunandi tilboð borist í aksturinn en segir nú að sveitarfélaginu beri ekki skylda til að sinna ferðum aldraðra út í samfélagið.

Kastljós fjallaði um mál konunnar í fyrrahaust. Konan fékk sýkingu í mænuna árið 2011 svo hún lamaðist og hefur síðan búið á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir hefur konan ekki átt kost á aksturþjónustu fatlaðs fólks. Í umfjöllun Kastljóss sagði Ásthildur Sturludóttir, sveitarstjóri Vesturbyggðar, að engin viðunandi tilboð hefðu boðist í aksturinn. Síðan þá hefur ekkert gerst. 

Ákvörðun Vesturbyggðar um að synja konunni um akstur var kærð til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála sem komst að þeirri niðurstöðu að fella ákvörðunina úr gildi og leggja fyrir sveitarfélagið að taka umsókn konunnar til löglegrar meðferðar. Héraðsblaðið Bæjarins besta segir frá því að í fyrrahaust mæltist réttindavakt Velferðarráðuneytisins til þess af félagsþjónustu Vesturbyggðar að brugðist yrði við úrskurðinum, en í júní hafði ekkert verið gert. Því var óskað eftir að innanríkisráðuneytið tæki málið til meðferðar.

Réttindavaktin hefur nú sent innanríkisráðuneytinu erindi vegna akstursþjónustunnar í Vesturbyggð. Ráðneytið óskaði eftir svörum Vesturbyggðar um hvernig sveitarfélagið hefði brugðist við úrskurðinum og hver staða málsins væri í dag. Bréf ráðuneytisins var tekið fyrir á fundi bæjarráðs í vikunni og í bókun þess segir að sveitarfélögum beri ekki skylda til að sinna ferðum fyrir aldraða út í samfélagið, samkvæmt lögum um málefni aldraða.