Hellulagt í lakkskóm í Baku  • Prenta
  • Senda frétt

Framkvæmdir standa enn yfir í Kristalshöllinni í Baku. Iðnaðarmenn eru á þönum meðan listamennirnir æfa atriðin sín. Hrafnhildur Halldórsdóttir var í Kristalshöllinni þegar Morgunútvarpið náði tali af henni í morgun.

Gréta Salóme, Jónsi og aðrir listamenn voru enn á hótelinu enda næsta æfing ekki fyrr en síðar í vikunni. Þau eru að hvíla sig og fara vel og vandlega yfir atriðið sitt. Fyrsta æfingin var mjög strembin segir Hrafnhildur því hún hófst stuttu eftir að þau komu og sumir í hópnum náðu ekkert að sofa. Hrafnhildur hefur farið á nokkrar söngvakeppnir og hún segir að þær stækki og stækki. Viðburðurinn í Baku sé sá stærsti hingað til. Sumt er samt alltaf eins, segir Hrafnhildur. Það er t.d. búið að opna klúbb í Bakú sem sérstaklega er ætlaður listamönnum, gestum og blaðamönnum söngvakeppninnar. Þar kemur saman fólkið sem veit allt um keppnina og þegar hafa nokkrir spurt Hrafnhildi og félaga; Hvar er Selma?  Hrafnhildur segir að framkvæmdir við höllina standi enn yfir. Enn er verið að sparsla og mála. Það er líka verið að helluleggja fyrir utan í 30 stiga hita og Hrafnhildur sá mann sem var að leggja hellur, klæddur þunnri skyrtu, ljósum buxum og lakkskóm!

 

 

 

 

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku