Erum orðin of upptekin til að deyja

Eurovisionkeppnin og dauðinn eiga óvenjulegt stefnumót í sjónvarpsmyndinni Líf eftir dauðann eftir Veru Sölvadóttur og Lindu Vilhjálmsdóttur, sem sýnd verður á RÚV að kvöldi páskadags og annars í páskum.

Í myndinni segir af Erni, poppara sem kominn er af léttasta skeiði en fær það hlutverk að taka þátt í Eurovision fyrir Íslands hönd. Örfáum dögum fyrir brottför grípa þó örlögin í taumanna, og öldruð móðir hans deyr.

Sýnishorn úr þáttunum.

Skrifuðu myndina í kringum Björn Jörund

„Hann er svolítið tæpur alki sem á til að detta í pillurnar og neitar að fara fyrr en móðir hans er komin í vígða gröf,“ segir Vera Sölvadóttir leikstjóri. „Það leggjast því allir á eitt til að koma þessari gömlu konu í gröfina til að drengurinn hennar geti farið og keppt í Eurovision.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Sagafilm
Þættirnir voru skrifaðir með Björn Jörund í huga.

Það er Björn Jörundur Friðbjörnsson sem fer með hlutverk hins breyska en sjarmerandi söngvara. „Við skrifuðum þetta í kringum hann og ef hann hefði sagt nei held ég að við hefðum ekki gert þetta. Ég sé ekki fyrir mér neinn annan í þessu hlutverki en Björn Jörund. Hann er yndislegur og það var yndislegt að vinna með honum.“ 

Ekki pláss fyrir dauðann í nútímasamfélagi

Segja má að í myndinni mætist tveir heimar sem virðast ekki eiga mikið sameiginlegt; glitrandi fantasíuveröld Eurovisionkeppninnar og jarðbundinn veruleiki dauða og greftrunar. 

„Í raun og veru er bara ein manneskja sem fer í gegnum alla þættina og það er líkið,“ útskýrir Vera. „Björn Jörundur er lítið í fyrri þættinum, hann kemur sterkur inn í öðrum þætti. Upprunalegan hugmyndin hennar Lindu og sú sem ég stökk á er líkið, móðir hans, og hún er í raun og veru aðalpersóna þáttanna. Í raun og veru snýst plottið um að í neyslusamfélagi nútímans er ekki pláss fyrir dauðann. Við höfum ekki tíma til að deyja, við erum of upptekin við aðra hluti. Það er svolítið íslenskt.“

Myndband við eurovision slagarann úr myndinni, „You need to know“
Mynd með færslu
Bergsteinn Sigurðsson
dagskrárgerðarmaður
Menningin
Kastljós