Ertu lesbísk Noora?

19.05.2017 - 15:06
Norsk unglingaþættirnir SKAM eða Skömm hafa farið sigurför um allan heim. Aðalframleiðandi þeirra segir að þetta sé ævintýri sem hún eigi ekki eftir að upplifa aftur.

 

 - Noora,  það er dálítið sem ég hefur verið að hugsa um og ég spyr þig bara beint. Ertu lesbísk? Það er ekkert rangt við það að vera lesbísk. Það er ekkert skrýtið að ég haldi það vegna þess að þú stundar ekki kynlíf og hefur engan áhuga á að tala um stráka eða kynlíf.

Þetta var Vilde Lien Hellerud að spyrja Noora Amalie Sætre hvort hún væri lesbísk. Vilde fannst það eðlileg spurning vegna þess að Noora stundar ekki kynlíf og hefur engan áhuga á að ræða um stráka.

Vilde og Noora eru 16 ára norskar stelpur í Hartvig Nissens menntaskólanum í Osló. Þær eiga það sameininglegt að vera tvær af aðalpersónum í unglingasjónvarpsþáttunum Skam eða Skömm sem hafa farið sigurför út um allan heim. Marianne Furuvold er aðalframleiðandi og einn af höfundum þáttanna sem fjalla um líf 16 ára unglinga. Hún segir að markmið þáttanna hafi frá upphafi verið skýrt að hjálpa 16 ára stúlkum að takast á við áskoranir á þessu lífsskeiði. En markmiðið var líka annað.

„Hluti af verkefninu sem við fengum frá stjórnendum NRK, norska ríkisútvarpinu, var að reyna að fá unglinganna aftur til NRK,“ segir Marianne. 

Köfuðu í hugarheim stúlknanna

Áður en tökur hófust fyrir tveimur árum var ráðist í umfangsmikla rannsóknarvinnu á hegðun og lífsmáta  unglinga. Marianne segir að tekin hafi verið 50 ítarleg viðtöl við unglinga og fjölmörg önnur sem voru styttri  til að kafa niður í hugarheim 16 ára stúlkna og til að komast að því hverjar þarfir þessa hóps eru.

„Við fórum í skóla og unglingaklúbba og við heimsóttum unglingahópa bæði út frá búsetu og menningarlegum atriðum til að fá vitneskju um áhugamál  hópsins,“ segir Marianne.
Þau kynntu sé líka hvað væri að gerast á samfélagsmiðlunum og hvernig hópurinn notar t.d. Feisbook og Instagram svo eitthvað sé nefnt.

 

Hér að ofan má hlýða á samtal Sönu við móður sína. Í fjórðu þáttaröðinni er kastljósinu beint að múslímskri stúku, Sönu. Móðir hennar hefur áhyggjur af dóttur sinni. Hún segist treysta henni en segist vita að það séu margir unglingar sem fylgi ekki sömu reglum og hún. Hún viti það vel að í norska samfélaginu sé margt sem samræmist ekki múslímskum reglum. Sana svarar fyrir sig og segir móður sinni að  það sé mjög margt í Islam sem passi þeim ekki heldur. Eins og t.d. viðhorfið til samkynhneigðra eða hvers vegna  reglur Íslam segi að karlar geti kvænst konum úr öðrum trúarbrögðum en múslímskar konur hafi ekki leyfi til að gera slíkt. Er það ekki kynjamismunun, spyr Sana móður sína. Er það ekki skrýtið þegar Kóraninn segir að það eigi að laga sig að öllum samfélögum. Móðirin er forviða yfir ræðu dótturinnar og spyr hvaðan þetta komi. Sana svarar og spyr hvort það sé ekki í lagi að spyrja spurninga.

 Marianne Furevold segir að Sana eigi sér fyrirmynd. Í undirbúningi þáttanna ræddu þau við múslímska stúlku sem var mjög sjálfstæð en kvartaði yfir því að hvorki í sjónvarpi né kvikmyndum væri dregin upp raunsæ mynd af stúlkum eins og henni.

„Það eina sem hún sá voru kúguð fórnarlömb. Og þá sáum við að við urðum að búa til persónuna Sönu. Það var raunveruleg þörf sem við komumst að í okkar rannsóknum,“ segir Marianne.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Marianne Furevold. Hún flutti erindi um Skam á ráðstefnu um framtíð RÚV

Fengu unglingana til baka

Eitt markmiðið með Skam var að fá unglingana aftur til baka til NRK og það er óhætt að fullyrða að það hafi tekist. Þegar þættirnir byrjuðu í september 2015 fylgdust tæplega 25 þúsund með þeim en eftir þriðju þáttarröðina  fylgdust tæplega 1,3 milljónir með þáttunum NRK sem eins og aðrar sjónvarps og útvarpsstöðvar hafa ekki farið varhluta af þeirri þróun að unglingar eru hættir að setjast niður að horfa á sjónavarp eða hlusta á útvarp. Ef þeir vilja sjá eða heyra eitthvað sækja þeir það á netinu og velja sjálfir tímann. Þættirnir eru vissulega sýndir á föstudögum á NRK 3 en það er ekki nema brot af þeim sem fylgjast með þáttunum sem horfir á þá þá.

„Daglega birtum netspjall milli aðalpersónanna eða  stutt myndskeið. Myndskeiðin eru svo sett saman og send út  í lok vikunnar,“ segir Marianne.

Þannig að línuleg dagskrá skiptir afar litlu máli. Inn á netsíðu þáttarins er hægt að fylgjast með spjallinu og horfa á stuttu myndskeiðin. Þau eru oft send út nær í rauntíma. Til dæmis ef fjallað er um veislu á föstudagskvöldi þá er það efni tiltækt á föstudagskvöldi. Að auki eru aðalpersónunar þátttakendur á Instagram, Facebokk og víðar þar sem þær birta myndir og spjalla. Þó að þessar persónur séu ekki til hafa þær ótal fylgjendur sem spjalla við þær eins og þær sé raunverulegar.
En þættirnir hafa slegið rækilega í gegn, ekki bara í Noregi heldur víða um heim. Og hér heima er hægt að fylgjast með þeim á RÚV.

„Það er ljóst að þetta ævintýri með Skam er af þeirri stærðargráðu sem ég á ekki eftir að upplifa aftur“ segir Marianne.

 

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi