Erkitáknmynd fjármálakerfisins að kaupa Arion

20.03.2017 - 06:28
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, rifjar upp á Facebook-síðu sinni að vogunarsjóðurinn Och-Ziff, einn af nýju eigendum Arionbanka, hafi þurft að borga himinháa sekt vegna mútumála í fimm Afríkuríkjum. Hann segir ríkisstjórna vera algerlega óundirbúna og stefnulausa um framtíð fjármálakerfisins.

Tilkynnt var í gærkvöld að erlendir sjóðir og fjárfestingabankinn Goldman Sachs hefðu keypt tæplega þrjátíu prósenta hlut í Arion banka fyrir 48,8 milljarða króna. 

Ásamt Goldman Sachs, sem eignast 2,6 prósent, samanstendur kauphópurinn af Taconic Capital, Attestor Capital og Och Ziff Capital.  Og það er einmitt sá síðastnefndi sem Sigmundur tekur fyrir í Facebook-færslu sinni. Och-Ziff varð uppvíst að því að hafa greitt embættismönnum í Líbíu, Tsjad, Níger, Gíneu og Kongó meira en 100 milljónir dollara í mútur. Og féllst sjóðurinn á að greiða 413 milljónir dollara í sekt.

Sigmundur segir enn fremur að sjálf erkitáknmynd alþjóðafjármálakerfisins, Goldman Sachs, hafi nú eignast hlut í Arionbanka. Ríkisstjórnin sé algjörlega óundirbúin og stefnulaus um framtíð fjármálakerfisins.

Frank Brosens, eigandi Taconic Capital, segir í samtali við Fréttablaðið í morgun að fjárfestingin sé hugsuð til meðallangs eða langs tíma. Hann kveðst jafnframt skilja þá sem gagnrýni eignarhald vogunarsjóða á bönkum - ekki megi þó setja alla slíka sjóði undir sama hatt.

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, sagði í samtali við mbl.is að sjóðirnir væru nú að veðja með bankanum og Íslandi. „Það er öf­ugt veðmál en fyr­ir hrun þegar veðjað var gegn Íslandi. Það er hægt að horfa á það já­kvætt.“ Og Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, segir í viðtali við vefinn að það séu ánægjulegar fréttir að erlendir aðilar skuli koma með fjármagn til landsins og fjárfesta í íslenskum banka.