„Er það ekki eins og hvítur Shaft?“

12.07.2017 - 18:36
Nú virðist það ljóst að Daniel Craig muni snúa aftur í hlutverki njósnara hennar hátignar, James Bond, þrátt fyrir að hafa áður lýst því yfir að hann myndi frekar skera sig á púls en að leika James Bond aftur.

Nína Richter og Guðjón Helgason ræddu þessu tíðindi í Síðdegisútvarpinu og sitt sýndist hvoru. „Þetta er svipað og eftir You Only Live Twice, þá sagðist Sean Connery aldrei aftur ætla að leika Bond. Svo kom Lazenby í eina mynd og svo Connery aftur í Diamonds Are Forever. Þannig maður ætti aldrei að segja aldrei þegar kemur að Bond,“ segir Guðjón. Því var velt upp hvort að yfirlýsingar Craig væru mögulega innlegg í launaviðræður. „Já maður svona hugsar það fyrst. Eða jafnvel leið til þess að fá áhorfendur á sveif með sér,“ segir Nína.

Kynbundið ofbeldi í elstu myndunum

„Þetta kveikir samt alltaf skemmtilega umræðu um hver sé næstur. Áður höfðu Tome Hiddleston og Idris Elba verið nefndir sem mögulegir arftakar og einhverjar leikkonur líka,“ segir Guðjón. Nína telur að það myndi aldrei ganga upp að Bond væri kona. „James Bond er nátengdur hugmyndum okkar um karlmennskuna, og virðist skilgreina hinn fullkomna karlmann á hverjum tíma.“ Hún segir áhugavert að skoða hvernig samskipti Bond's við konur breytast með árunum. „Ef maður horfir á elstu Bond myndirnar þá eru hlutir þar í gangi sem myndu flokkast sem hreint kynbundið ofbeldi í dag.“

epa05289395 British actor Idris Elba arrives on the red carpet for the 2016 Costume Institute Benefit at The Metropolitan Museum of Art celebrating the opening of the exhibit 'Manus x Machina: Fashion in an Age of Technology' in New York, New
 Mynd: EPA
Nafn Idris Elba hefur ítrekað borið á góma í umræðum um næsta Bond. Hann vakti fyrst athygli í hlutverki eiturlyfjasalans Stringers Bell í þáttunum The Wire.

Mun Nolan leikstýra næstu mynd?

Guðjón segist íhaldssamur þegar kemur að sjálfsmynd Bond. „Bond fyrir mér er hvítur karlmaður og helst Englendingur.“ Nínu fannst þó ekki nauðsynlegt að Bond sé hvítur og var spennt fyrir því að hinn þeldökki Idris Elba myndi taka að sér hlutverkið. „En er það ekki eins og hvítur Shaft? Eða Mary Poppins verði Mark Poppins. Það eru sumir karakterar sem eru bara nákvæmlega eins og þeim er lýst,“ svarar Guðjón. Hann er spenntari fyrir orðrómi það að Christopher Nolan muni leikstýra næstu Bond mynd, en hann er einn helst þekktur fyrir að hrista upp í myndaflokknum um Batman.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Guðjón Helgason og Nína Richter eru miklir James Bond áhugamenn.

Hábeinn heppni með byssu

„Bond er saga sem er út í hött í dag,“ segir Nína sem er nokkuð vonsvikin að ekki hafi verið skipt um leikara og kúrs í myndaflokknum. „Hann lítur út eins og Hábeinn heppni með byssu. Maður sér byggingarnar hrynja undan honum en hann sleppur ómeiddur og fötin hans krumpast varla.“ Guðjón er hins vegar ánægður með að fá eina mynd enn af Craig. „Craig-myndirnar, eins og þetta var sett upp í síðustu mynd, þær hanga saman í sögunni. Mér finnst vanta einhver endalok til að klára söguna almennilega,“ segir Guðjón að lokum.