Er lögbrot að greiða ekki listamönnum?

Menningarefni
 · 
Víðsjá

Er lögbrot að greiða ekki listamönnum?

Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
19.04.2017 - 16:38.Halla Þórlaug Óskarsdóttir.Víðsjá
Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur, hefur skoðað samninga sem söfn hafa gert við myndlistarmenn og veltir fyrir sér hvort möguleg lagabrot felist í því að greiða ekki listamönnum laun. Hún fjallar um þetta á ráðstefnu sem SÍM stendur fyrir í Rúgbrauðsgerðinni föstudaginn 21. apríl.

„Það er ljóst að verið er að búa til samninga þar sem gert er ráð fyrir að fólk vinni án þess að fá laun og það á bara við um þetta fólk, myndlistarmenn, sem söfnin hafa þó metið að slíkum verðleikum að þau biðja viðkomandi aðila um að sýna hjá sér,“ segir Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur, sem furðar sig á þessari stöðu. „Þetta er ekki í nokkrum takti við þróun á vinnurétti og öðru á Íslandi, né annars staðar. Hin augljósa meginregla er, að ef þú vinnur einhvers staðar, fyrir einhvern, þá áttu að fá greitt fyrir það.“

Katrín segir að þrátt fyrir að framlög til listamanna hafi vissulega hækkað jafnt og þétt, hafi opinberu söfnin ekki viljað gangast við þeim samningsdrögum sem SÍM lagði fram árið 2015, að norrænni fyrirmynd, þar sem lagt er til fast fyrirkomulag hvað greiðslur til listamanna varðar. „[Söfnin] ættu að taka sig saman og að sjálfsögðu krefjast þess að fá aukin framlög frá hinu opinbera til þess að geta mætt því að borga fólki eðlileg laun,“ segir Katrín.

Hún segir ennfremur að aðrir listamenn búi ekki við samsvarandi kjaraskerðingu frá hinu opinbera. „Við getum skoðað til dæmis leikhúsin og flestan annan listsköpunariðnað, en þar vinnur ekki fólk endalaust án endurgjalds,“ segir Katrín. 

„Í raun og veru er þetta grafalvarlegt, því fólkið sem vinnur þessi störf er í hálfgerðri fátækragildru vegna þess að þessar þóknanir eru skammarlega lágar, því miður, þótt einhver bót hafi verið gerð á, og þar af leiðandi getur fólk ekki borgað í lífeyrissjóð og annað, vegna þess að það fær ekki greitt laun, og hvað gerist þá að lokum? Fólk situr uppi bláfátækt kannski eftir heilt ævistarf.“

Ráðstefnan sem SÍM stendur fyrir föstudaginn 21. apríl ber heitið Svona verður framtíðin, hvernig komumst við þangað..?