Er hægt að lifa af list?

Menningarefni
 · 
Víðsjá

Er hægt að lifa af list?

Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
10.01.2017 - 16:41.Halla Þórlaug Óskarsdóttir.Víðsjá
„Það er gömul saga og ný að þeir sem verða hvað frægastir í framtíðinni eru lítils metnir í dag,“ segir listfræðingurinn og hagfræðingurinn Kári Finnsson. Hann telur mikilvægt að stuðningsumhverfi fyrir listamenn sé fjölbreytt.

Markaðsvæðing listarinnar flókin

„Já, stuttu máli held ég að það sé hægt að lifa af listinni, en slæmu fréttirnar eru þær að það geta ekki allir gert það,“ segir Kári. Ástæðuna segir hann tvíþætta, annars vegar eru fáir sem ná slíkum vinsældum, að geta framfleytt sér með sölu á eigin list, og hins vegar hefur smæð markaðarins á Íslandi áhrif. 

Kári á hér við hugmyndina um að lifa af list sinni með því að selja hana beint til neytenda. Hérlendis verður þó að telja víst að flestir listamenn reiði sig á styrki og stofnanir til þess að halda sér á floti.

„Þótt að listmarkaðurinn sem slíkur sé mjög stór markaður og mikið sýslað með myndlist víða um heim þá er raunin sú að fæstir myndlistarmenn fara í myndlist til þess að græða, þeir fara í myndlist til þess að tjá sína list og kanna nýjar hugmyndir,“ segir Kári og bætir við að margir angar samtímalistar séu illa fallnir til þess að vera markaðsvæddir.

Fjölbreytt styrkjaumhverfi mikilvægt

En er ekki líka svolítið flókið að ætlast til þess að hinn almenni neytandi, eða markaðurinn, beri skynbragð á samtímalist og geti metið virði verkanna?

„Það er náttúrlega gömul saga og ný að þeir sem verða hvað frægastir í framtíðinni eru lítils metnir í dag og út á það snýst framúrstefnan. Hún horfir fram á við. En þess vegna tel ég að það sé mikilvægt að það sé fjölbreytt stuðningsumhverfi fyrir listamenn. Þá ég við um list á hvaða formi sem er; myndlist, ritlist eða hvaðeina, vegna þess að markaðsöflin, hversu góður mælikvarði sem þau eru á það hvað fólk vill, eru það ekki algildur mælikvarði á gæði hlutanna. Og þess vegna er mjög gott að hafa fjölbreytt umhverfi til þess að styrkja og styðja við listamenn.“

Hvernig er þetta umhverfi á Íslandi?

„Á Íslandi er þetta tiltölulega fjölbreytt styrkjaumhverfi. Þungamiðjan er listamannalaun og síðan geta listamenn sótt í alls konar styrki; næstum því einvörðungu opinbera styrki, og svo er náttúrlega listmarkaður á Íslandi til staðar.“ Kári bendir á að sú auðlind sem listamenn sæki í sé þó takmörkuð og mætti vel stækka. Hann nefnir það sem kost að einkaaðilar velji í auknum mæli að styðja við listina.

Listin sem ekki reynir að þóknast lifir af

En þegar listin verður svo markaðsvædd hlýtur að myndast sú hætta að markaðurinn fari að stýra sköpuninni. Að listamenn fari hreinlega að búa til list fyrir markaðinn, í stað þess að markaðurinn reyni að skynja stefnur og strauma samtímans í hinu stóra samhengi. Kári samsinnir þessu.

„Þetta er auðvitað ákveðin dílemma. Þú stendur frammi fyrir því sem listamaður að til þess að geta selt eitthvað þá þarf það að ná ákveðnum vinsældum og þá getur verið að þú þurfir að fórna einhverri brennandi innri þörf til þess að þóknast þessum öflum,“ segir Kári en bætir við að á endanum sé það yfirleitt sú list sem sköpuð er af listrænni þrá sem lifi af. List sem ekki er sköpuð til þess að þóknast neinum, hvort sem það er markaðurinn eða listfræðingar þess tíma.

Listamenn hafa löngum þurft að berjast í bökkum, listin er hark. Ástríðan er eldiviðurinn, en einhvern veginn þurfa listamenn að framfleyta sér. Viðtalið við Kára Finnsson má heyra í heild sinn hér fyrir ofan, en þar er leitað svara við spurningum eins og hvort nauðsynlegt sé að slá í gegn á hinum alþjóðlega markaði til að lifa af listinni? Eru einhverjar hagfræðilegar lausnir í sjónmáli? Hvaða þýðingu hafa listamannalaun fyrir listamenn? Hvers vegna er sneið hönnuða af kökunni svo miklu minni en hinna sem teljast til hinna klassísku lista? Er sanngjarnt að listamannalaun séu verkefnatengd?

Viðtalið var flutt í Víðsjá.

Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá verkið 18.401 eftir myndlistarmanninn Jóhann Ludwig Torfason. Hann stendur á bak við fyrirtækið Pabbakné. Verkið var gefið út 1. maí árið 2016 í 592 eintökum, þar sem hvert eintak er ígildi 18.401 krónu, og heildarverðmæti upplagsins því 10.893.392, sem samsvarar þeirri upphæð sem Pabbakné hefur fengið úr opinberum sjóðum samanlagt frá árinu 1997, í formi listamannalauna. Formlega er verkið sagt vera eftir „afleysingarmanninn Jóhann Ludwig Torfason“ og kýs fyrirtækið Pabbakné, útgefandi verksins, að nefna heildarupphæðina - listamannalaunin - styrk til átaksverkefnis, líkt og býðst sem úrræði hjá Vinnumálastofnun.