Enn einn ráðgjafi Trumps á förum

04.09.2017 - 06:37
epa05752695 US President Donald J. Trump (R), with his Director of Oval Office Operations Keith Schiller (L), walks out of the Oval Office to board Marine One on the South Lawn of the White House in Washington, DC, USA, 26 January 2017. President Trump is
Keith Schiller og Donald Trump.  Mynd: EPA
Einn traustustu ráðgjafa Bandaríkjaforseta og verkefnastjóri á skrifstofu forsetans verður látinn taka föggur sínar úr Hvíta húsinu á næstunni. Bandaríska CBS fréttastofan kveðst hafa heimildir fyrir þessu.

Keith Schiller er sagður einn nánasti vinur Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, meðal starfsmanna forsetaembættisins. Samband þeirra nær langt aftur, löngu áður en Trump íhugaði forsetaframboð. Schiller var með greiðan aðgang að skrifstofu forsetans eftir að Trump tók við embætti, en nýr starfsmannastjóri Hvíta hússins, John Kelly, hefti aðgang hans verulega. 

Reynist heimildir CBS réttar verður Schiller þriðji náni ráðgjafi Trumps til þess að yfirgefa Hvíta húsið frá ráðningu Kellys í embætti starfsmannastjóra. Steve Bannon fór um miðjan ágúst, en hann var yfir stefnumótun ríkisstjórnarinnar og æðsti ráðgjafi forsetans, og Sebastian Gorka, aðstoðarmaður forseta, tók pokann sinn viku síðar.