Enn auglýst eftir 20 grunnskólakennurum

09.08.2017 - 18:50
Mynd með færslu
Hraunvallaskóli í Hafnarfirði.  Mynd: Þór Ægisson  -  RÚV
Enn er auglýst eftir tuttugu grunnskólakennurum til starfa á höfuðborgarsvæðinu þegar tvær vikur eru í að skólastarf hefjist. Þar af vantar sex kennara í einn skóla. Formaður skólastjórafélagsins segist hafa áhyggjur af stöðunni, sem skýrist meðal annars af því að vel ári í þjóðfélaginu.

Á vef Reykjavíkurborgar má sjá að enn er auglýst eftir átta kennurum til starfa í grunnskólum borgarinnar, en þó hvergi fleiri en einum. Í Kópavogi eru þeir þrír í jafnmörgum skólum, einn í Garðabæ og átta í Hafnarfirði. Verst er ástandið í Hraunvallaskóla á Völlunum í Hafnarfirði. Þegar ekki eru nema tvær vikur í að hringt verði inn í fyrsta tíma vantar enn sex kennara þar til starfa.

„Við höfum að sjálfsögðu áhyggjur af þessari stöðu,“ segir Svanhildur M. Ólafsdóttir, formaður Skólastjórafélags Íslands. „Við vorum með formannafund hér í dag, formenn svæðafélaga voru hér ásamt stjórn, og við vorum að ræða þessa stöðu – hvað það er erfitt að manna skólana þetta haustið.“

Hún segir að þessi þróun hafi byrjað í fyrra. „En núna á þessu ári þá er mun meira um að það vanti fólk, eina til tvær kennarastöðu hérna á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel fleiri.“

Ekki endilega betra á landsbyggðinni

Í úttekt sem Ríkisendurskoðun birti í febrúar kom fram að yfir helmingur réttindakennara á landinu ynni í öðrum störfum. Svanhildur rekur stöðuna nú til launa kennara og batnandi efnahagsástands.

„Það er eins og þegar betur ári þá fari kennarar í önnur störf og þá vantar kennara,“ segir hún.

Á landsbyggðinni er mun minna auglýst eftir grunnskólakennurum – enn er leitað að tveimur kennurum í Sunnulækjarskóla á Selfossi, en að öðru leyti er fáar auglýsingar að sjá hjá stærri sveitarfélögum. Svanhildur segir þetta þó ekki endilega þýða að staðan sé betri þar.

„Það er oft þannig að skólar úti á landi eru kannski búnir að auglýsa, búnir að fá leiðbeinendur til starfa og það er erfiðara að ráða á síðustu stundu en hefur verið hér í Reykjavík undanfarin ár,“ segir Svanhildur M. Ólafsdóttir, formaður Skólastjórafélags Íslands.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV