Enginn frá Afríku á Afríkuþingi

21.03.2017 - 04:21
epa05069517 An immigration officer stamps the papers of refugees form Eritrea and Ethiopia upon their arrival at Kassel Airport in Calden, Germany, 14 December 2015. A group of 156 so-called resettlement refugees from Khartoum, Sudan arrive to Germany on
 Mynd: EPA  -  DPA
Árlegt afrískt viðskiptaþing var haldið í Kaliforníu um helgina án aðkomu nokkurs frá Afríku. Samkvæmt skipuleggjendum var að minnsta kosti 60 þátttakendum neitað um vegabréfsáritun.

Þriggja daga þing um efnahag og þróun Afríku á alþjóðavísu er haldið árlega í Suður-Kaliforníu háskóla, USC. Yfirleitt mæta þangað afrískar sendinefndir til þess að hitta bandaríska viðskiptamenn í von um samstarf. Í ár kom enginn frá Afríku því öllum var neitað um vegabréfsáritun að sögn Mary Flowers, skipuleggjanda þingsins.

Að sögn breska dagblaðsins Guardian velta ýmsir sér vöngum yfir því hvort neitun yfirvalda um vegabréfsáritanir tengist harðri innflytjendastefnu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Nýlega skrifaði hann undir tilskipun þess efnis að ferðamenn frá sex löndum megi ekki koma til Bandaríkjanna næstu þrjá mánuði, en tímabundið lögbann hefur verið sett á það.

Flowers segir að á milli 60 til 100 manns frá á öðrum tug landa hafi verið neitað um að koma til Bandaríkjanna. Þingið var haldið þrátt fyrir það, en mun færri mættu en búist var við. Flowers segist ekki vita hvort þetta væri vegna áhrifa forsetans. Henni þyki þetta miður því viðskiptasamböndin sem myndist á þinginu búi bæði til störf í Bandaríkjunum og Afríku.

Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins gat ekki tjáð sig um málið. Hann sagðist ekki geta velt vöngum yfir því hvort hinn og þessi séu hæfir til þess að fá vegabréfsáritun. Umsóknum sé hafnað ef umsækjandinn er talinn ógjaldgengur samkvæmt lögum og reglugerðum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þátttakendum á ráðstefnunni er neitað um vegabréfsáritun. Frá því Flowers tók við sem skipuleggjandi, árið 2013, hefur um 40 prósent þeirra sem vilja mæta verið neitað um áritun. Hún hafi þó aldrei lent í því að öllum sé neitað líkt og nú.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV