Engin gögn um dulkóðuð samskipti Thomasar

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Rannsókn á farsíma Thomasar Møllers Olsens leiddi í ljós að hann hefði ekki notað dulkóðaða samskiptaforritið Wicker nóttina sem Birna Brjánsdóttir hvarf. Þetta sagði Loftur Kristjánsson, lögreglumaður í tölvurannsóknadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, við aðalmeðferð málsins í dag. Þegar lögregla reyndi að afla upplýsinga um ferðir Thomasar sagðist Olsen hafa farið á bílnum til að koma af sér pakka. Hann kvaðst hafa verið í samskiptum við aðra um þá ferð sína gegnum Wicker.

Thomas er ákærður fyrir fíkniefnasmygl auk morðsins á Birnu. Hann hefur gengist við fíkniefnasmyglinu og sagst hafa verið í samskiptum við menn vegna þessa. 

Loftur sagði í skýrslugjöf sinni í morgun að öll samskipti forritsins væru dulkóðuð og að þau eyddust eftir ákveðinn tíma. Að auki væri ekki hægt að taka skjámynd af þessum samskiptum og að því leytinu væri erfitt að finna upplýsingar um notkun þess. Á móti kemur að kerfislægar skrár í símanum halda utan um hvaða forrit nýti sér gagnamagnsfærslur. Loftur sagði að forritið hefði verið notað dagana, 4., 6., 11. og 13. janúar. Ekkert benti hins vegar til að það hefði verið notað nóttina sem Birna hvarf, líkt og Thomas hélt fram í skýrslugjöf sinni.

Skýrslugjöf vitna lauk um klukkan tólf í dag. Málflutningur saksóknara og verjanda hefst klukkan 13.15.