Engar sannanir fyrir hlerunum í Trump turninum

02.09.2017 - 22:32
epa05706708 (FILE) A file picture dated 10 November 2016 shows US President Barack Obama (R) as he shakes hands with President-elect Donald Trump (L) at the end of their meeting in the Oval Office of the White House in Washington, DC, USA. On 04 November
 Mynd: EPA
Bandaríska dómsmálaráðuneytið greindi frá því í kvöld að engar sannanir séu fyrir því að Barack Obama, fyrrum Bandaríkjaforseti, hafi látið hlera Trump turninn í New York í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra. 

Fram kemur í dómsskjali frá ráðuneytinu að bæði alríkislögreglan, FBI og þjóðaröryggisdeild dómsmálaráðuneytisins, NSD, staðfesti að engin ummerki séu um hleranir frá byggingunni. Rannsóknina má rekja til færslu Donalds Trumps, núverandi forseta, á Twitter í mars á þessu ári. Þar ásakaði hann forvera sinn um að hafa hlerað skrifstofur sínar og líkti málinu við Watergate málið. Þá sagði hann Obama vera slæman, eða sjúkan, mann.

Fyrrum talsmaður Trumps, Sean Spicer, sagði forsetann hafa þetta eftir fréttaskýringu á Fox fréttastöðinni. Breska njósnastofnunin GCHQ hafi komið hlerunarbúnaðinum fyrir. Mike Rogers, yfirmaður þjóðaröryggisstofnunarinnar NSA, sagði það fráleita fullyrðingu, enda bryti slíkt í bága við samkomulag leyniþjónusta fimm ríkja sem staðið hefur í áratugi.

Samtökin American Oversight, óháð samtök sem fylgjast með starfsemi stjórnvalda, sóttust eftir dómsskjalinu í nafni upplýsingalaga. AFP fréttastofan hefur eftir Austin Evers, formanni samtakanna, að gögnin sýni að dómsmálaráðuneytið og FBI standi með James Comey, fyrrum yfirmanni FBI. Þarna sé staðfest að forsetinn hafi logið í færslu sinni á Twitter um hleranir forvera síns í Trump turninum. Þá sýni þetta að ráðuneytið telji Trump ekki vera trúverðugt vitni um lykilatriði í rannsókn yfirvalda á tengslum kosningaframboðs hans við Rússa.

Trump fór fögrum orðum um Vladimir Pútín, forseta Rússlands í kosningabaráttu sinni. Sagði hann sterkan leiðtoga og vonaðist hann eftir því að ná að efla samskipti stórveldanna. Undanfarið hafa samskiptin stirðnað. Bandaríkin hafa lagt frekari viðskiptaþvinganir á Rússa, ofan á þær sem voru settar eftir innlimun Rússa á Krímskaga 2014. Rússar svöruðu í síðasta mánuði með því að reka bandaríska sendiráðsstarfsmenn úr landi, sem Trump reyndar hrósaði þeim fyrir þar sem það lækkaði kostnað hins opinbera. Bandaríkin svöruðu hins vegar fyrir sig í vikunni og ráku rússneska diplómata frá þremur skrifstofum í Bandaríkjunum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV