Embættismenn reyndu að hindra ný lög um kvóta

13.07.2017 - 12:34
epa05187387 Danish Prime Minister Lars Lokke Rasmussen (C) presents Esben Lunde Larsen (L), as the new Environmental and Food Minister and Ulla Tornaes (R) as new Minister of Higher Education and Science, in front of Amalienborg Castle in Copenhagen, 29
Ulla Törnæs lengst til hægri.  Mynd: EPA  -  Scanpix Denmark
Embættismenn í danska matvælaráðuneytinu unnu markvisst að því að hindra að ný lög um stjórn fiskveiða kæmust til framkvæmda. Þetta gerðu þeir með vitund og blessun ráðherrans. Kallað hefur verið eftir afsögn hans.

Danska þingið samþykkti í vetur ný lög um stjórn fiskveiða. Þverpólitískur meirihluti utan stjórnar stóð að frumvarpinu, jafnaðarmenn, vinstri menn og Danski þjóðarflokkurinn. Hægri flokkurinn Venstre, sem er í ríkisstjórn, var á móti breytingunum, sem meðal annars fela í sér aukinn kvóta til strandveiða, og tilraunir til að hindra að svokallaðir kvótakóngar geti sölsað undir sig stóran hluta kvótans og svo leigt hann út til annarra.

Blaðamenn Berlingske hafa komist yfir gögn úr matvælaráðuneytinu, tölvupósta og minnisblöð, sem sýna svo ekki verður um villst, að embættismenn ráðuneytisins reyndu af fremsta megni að hindra að lögin kæmust til framkvæmda.

Áætlun þeirra var að fá talsmenn útgerðarmanna og bæjarstjóra sjávarbyggða á Jótlandi til þess að skapa svo mikil læti að á endanum myndu menn fallast á að fela matvælaráðherranum, Esben Lunde Larsen, að koma skikk á málin. Þannig yrði tryggt að ekki yrði hróflað of mikið við núverandi kerfi.

Gögnin sem blaðamenn Berlingske hafa komist yfir sýna ennfremur að ráðherrann var með í ráðum og vissi hvernig unnið var á bak við tjöldin. Þeir segja gögnin sýna að embættismennirnir hafi talið mikilvægara að aðstoða ráðherrann en að sinna þeirri skyldu sinni að koma því til framkvæmda sem löggjafinn hafi samþykkt. 

Michael Gøtze, prófessor í stjórnsýslurétti við Kaupmannahafnarháskóla segir við blaðið að skjölin sýni hversu pólitískir embættismenn ráðuneytanna séu í raun. Þau veki upp spurningar um að hve miklu leyti embættismönnum sé heimilt að hegða sér eins og fótgönguliðar ráðherra, en ekki þjónar hins opinbera.

Fyrr í vetur fékk ráðherrann áminningu í þinginu fyrir að hafa leynt þingið upplýsingum. Þá höfðu þingmenn beðið um upplýsingar um hvaða leiðir væru færar til að hindra að kvótinn safnaðist á of fáar hendur. Ráðuneytið lét ráðherrann fá 16 tillögur, en hann miðlaði einungis einni þeirra til þingsins.

Ib Poulsen, talsmaður Danska þjóðarflokksins í sjávarútvegsmálum, segir að málið sé grafalvarlegt, tvö gul kort jafngildi rauðu korti og gefur þannig í skyn að hugsanlega verði borin fram vantrauststillaga á ráðherrann. Fjölmargir þingmenn annarra flokka hafa gagnrýnt ráðherrann fyrir framgang hans í málinu og segja það grafalvarlegt.
 

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV