EM í körfubolta: Rússar í undanúrslit

13.09.2017 - 17:52
epa06202523 Russia's Timofey Mozgov (R-1) and Nikita Kurbanov (back) in action against Greece's Kostas Papanikolaou (L) and Ioannis Bourousis (C)  during the EuroBasket 2017 Quarter Final match between Russia and Grecee, in Istanbul, Turkey 13
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Grikkland og Rússland mættust í fyrri leik dagsins í 8-liða úrslitum á Evrópumótinu í körfuknattleik. Grikkir komu flestum á óvart þegar þeir unnu Litháen í 16-liða úrslitum en þeir mættu ofjarli sínum í dag. Lokatölur 74-69 Rússlandi í vil.

Grikkir byrjuðu betur

Grikkir byrjuðu leikinn mjög vel og voru sjö stigum yfir eftir fyrsta leikhluta. Það var lítið skorað í öðrum leikhluta og Grikkir fóru því með sex stiga forystu inn í hálfleik. Í rauninni héldu Grikkir forystu sinni allt fram í fjórða leikhluta en Rússarnir höfðu minnkað muninn niður í tvö stig undir lok þriðja leikhluta. 

Shved lykilmaður að venju hjá Rússum

Alexey Shved jafnaði leikinn í 53-53 með fyrstu körfu fjórða leikhluta. Shved setti svo vítaskot niður og kom Rússum tveimur stigum yfir. Það var forysta sem Rússar létu ekki af hendi en þeir unnu á endanum góðan fimm stiga sigur og eru því komnir í undanúrslit mótsins.

Shved var að venju stigahæstur í liði Rússa með 26 stig ásamt því að gefa fimm stoðsendingar. Timofey Mozgov skoraði 15 stig og tók tíu fráköst en Andrey Vorontsevich tók 12 fráköst ásamt því að skora 8 stig.

Hjá Grikkjum var Nick Calathes með 25 stig, sjö stoðsendingar og fimm fráköst. Georgios Printezis setti 19 stig og tók fimm fráköst. 

epa06202599 Greece's Georgios Printezis (R) in action against Russia's Aleksei Shved (L) during the EuroBasket 2017 quarter final match between Russia and Greece, in Istanbul, Turkey, 13 September 2017.  EPA-EFE/SEDAT SUNA
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður