Elvar Örn áfram á Selfossi

17.07.2017 - 09:24
Mynd með færslu
 Mynd: Hkd Selfoss
Karlalið Selfoss í Olísdeild karla í handbolta mun áfram njóta krafta miðjumannsins öfluga Elvars Arnar Jónssonar. Elvar Örn, sem valinn var besti miðjumaður Olísdeildarinnar í fyrra, gerði nýjan 2 ára samning við uppeldisfélag sitt.

Elvar Örn er 19 ára gamall og einn lykilmanna 21 árs liðs Íslands auk þess að hafa verið valinn í æfingahóp A-landsliðsins í vetur.

Hann var burðarás í liði Selfoss á liðnum vetri en Selfyssingar náðu 5. sæti deildarinnar sem nýliðar. Elvar Örn var markahæstur Selfyssinga í deildinni á liðnum vetri með 166 mörk.

Í yfirlýsingu Selfyssinga segir:

„Það er mikið fagnaðarefni fyrir handboltann á Selfossi að Elvar hafi kosið að spila áfram fyrir  sitt uppeldisfélag og væntir félagið mikils af honum sem og öllum þeim uppöldu Selfyssingum sem ákveðið hafa að halda tryggð við sitt heimafélag.“

Selfoss skipti um þjálfara í vor og tók Patrekur Jóhannesson við starfinu af Stefáni Árnasyni. 

Einar Örn Jónsson
íþróttafréttamaður