Ellefu létust í flóðum í Íran

12.08.2017 - 08:50
Erlent · Asía · Íran · Veður
Minnst ellefu dóu í asaflóðum af völdum gríðarlegs úrhellis í norðausturhéruðum Írans í gær og nótt. Tveggja er enn saknað, samkvæmt upplýsingum frá Rauða hálfmánanum.

Morteza Salimi, talsmaður Rauða hálfmánans í Íran, sagði átta hafa farist í Khorasan Razavi-héraði, tvo í Golestan og einn í Norður-Khorasan. Stormur gekk yfir Norðaustur-Íran í gær og fram eftir nóttu. Honum fylgdi steypiregn sem orsakaði flóð í fimm héruðum.

Nokkur þorp voru enn umflotin vatni þegar dagur reis þar eystra í morgun, að því er fram kemur í fréttt AFP. Þeir tveir sem saknað er voru í bíl sem asaflóð hreif með sér í Golestan-héraði. Kona, sem einnig var í bílnum, fannst látin, en leit heldur áfram að hinum tveim.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV