Eldur í Mosgerði - einn fluttur á sjúkrahús

14.05.2017 - 05:21
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir  -  RÚV
Einn maður var fluttur á slysadeild með brunasár og aðkenningu að reykeitrun eftir að eldur kom upp í kjallaraíbúð í húsi við Mosgerði í Reykjavík snemma á sjötta tímanum. Mannskapur og bílar frá öllum stöðvum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins fóru á vettvang. Húsið var mannlaust þegar að var komið en húsráðandi þar utandyra og var hann fluttur á sjúkrahús sem fyrr segir.

Mikinn og dökkan reyk lagði úr kjallara hússins þegar slökkvilið kom á staðinn. Búið er að slökkva eldinn. Lið frá tveimur stöðvum sinnti reykræstingu og öðru því sem sinna þarf á vettvangi í eftirleik eldsvoða. Töluverðar skemmdir urðu á húsnæðinu, samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, en ekkert liggur enn fyrir um eldsupptök. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV