Eldsvoði hjá Sæplasti á Dalvík

12.01.2017 - 09:57
Mynd með færslu
 Mynd: Sæplast
Mikill viðbúnaður var þegar eldur kom upp í verksmiðju Sæplasts á Dalvík á fimmta tímanum í nótt. Starfsmönnum tókst að slökkva eldinn áður en slökkviliðið kom á vettvang.

Eldurinn kom upp ofan á einum af ofnum verksmiðjunnar. Starfsmenn voru þá við framleiðslu á einangruðum plastkerjum. Minniháttar skemmdir urðu á ofninum en mildi þykir að eldurinn náði ekki að læsa sig í loftklæðningu verksmiðjunnar.

Hólmar Svansson, framkvæmdastjóri Sæplasts, segir ljóst að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni. Þetta sé tveggja ára gamall ofn og þarna eigi ekki að vera neinn eldsmatur. Verið sé að skoða nánar hvað fór úrskeiðis.

Hólmar segir það taka einn til tvo daga að gera við skemmdir á ofninum og koma honum í gang á ný. Engar aðrar skemmdir séu í verksmiðjunni.

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV