Eldflaugartilraun Norður-Kóreu fordæmd víða

14.05.2017 - 06:56
epa05962688 A South Korean man watches a television displaying news broadcasts reporting on North Korea's recent ballistic missile launch, at a station in Seoul, South Korea, 14 May 2017. North Korea launched a ballistic missile earlier in the day on
Seúl-búi fylgist með fréttum af eldflaugarskoti nágrannaríkisins á skjá á aðalbrautarstöð höfuðborgarinnar.  Mynd: EPA
Leiðtogar Suður-Kóreu, Bandaríkjanna og Japans fordæma harðlega nýjustu eldflaugartilraun Norður-Kóreumanna og forsetar Kina og Rússlands lýsa þungum áhyggjum af viðvarandi og vaxandi spennu á Kóreuskaganum. Norður-Kóreumenn skutu eldflaug á loft að morgni sunnudags að staðartíma. Sú flaug eina 700 kílómetra og lenti í Japanshafi. Þetta var önnur eldflaugartilraun Norður-Kóreuhers á tveimur vikum og sú fyrsta síðan nýr forseti, Moon Jae-In, tók við völdum í Suður-Kóreu.

Moon, sem er talsmaður aukinna samskipta og beinna viðræðna við stjórnvöld í Pjongjang, boðaði til neyðarfundar með helstu sérfræðingum sínum í þjóðaröryggismálum um leið og fregnir bárust af eldflaugarskotinu. Að honum loknum fordæmdi Moon eldflaugarskotið harðlega og sagði það grófa ögrun. Talsmaður forsetans segir hann enn á þeirri skoðun að Suður-Kórea eigi að vera opin fyrir möguleikanum á viðræðum við Norður-Kóreu. Það sé þó því aðeins mögulegt, að Norðanmenn sýni lit og breyti framgöngu sinni.

Stjórnvöld í Japan hafa einnig fordæmt eldflaugarskotið harðlega og það gerði Donald Trump Bandaríkjaforseti einnig í stuttri yfirlýsingu. Þar segir að forsetinn kalli eftir enn harðari refsiaðgerðum en þegar eru í gildi af hálfu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Eldflaugin hafi lent „svo nálægt rússneskri grundu - raunar nær Rússlandi en Japan - að forsetinn getur ekki ímyndað sér að Rússar séu ánægðir með það." Enn fremur segir að Norður-Kórea hafi komist upp með það allt of lengi að sýna af sér „svívirðilega ógnandi framkomu“ og Bandaríkin muni standa með bandamönnum sínum gagnvart þeirri alvarlegu ógn hér eftir sem hingað til án þess að hvika.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og starfsbróðir hans frá Kína, Xi Jinping, lýstu báðir áhyggjum sínum af vaxandi spennu á Kóreuskaganum eftir að fréttir bárust af eldflaugarskotinu. Forsetarnir ræddu þróun mála þar eystra á fundi sem þeir áttu í tengslum við setningu mikillar, alþjóðlegrar viðskiptaráðstefnu í Peking. Þar kynna heimamenn hugmyndir sínar um víðtækan, fjölþjóðlegan viðskiptasamning milli þeirra og landa í Asíu, Afríku og Evrópu.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV