„Ekki verra að fá sirkus heim til sín“

14.07.2017 - 19:30
Í desember 2011 keypti listakonan Aðalheiður S. Eysteinsdóttir Alþýðuhúsið á Siglufirði með það að markmiði að gera það upp. Húsið var síðan formlega tekið í notkun sem vinnustofa og heimili með menningarlegu ívafi 19. júlí 2012. Nú um helgina stendur yfir hátíð í Alþýðuhúsinu þar sem fimm starfsárum er fagnað. Á þeim tíma hefur húsið verið vettvangur yfir 120 lista- og menningartengdra viðburða.

Alþjóðleg vinnusmiðja

Alþjóðlega vinnusmiðjan Reitir hóf einnig göngu sína í Alþýðuhúsinu fyrir fimm árum, en sonur Aðalheiðar er þar annar skipuleggjenda. „Arnar Ómarsson og Ari Marteinsson hófu hér mjög fallega og skapandi smiðju sem þeir kalla Reitir workshop, og hefur verið árlegur viðburður hér til fimm ára.“ Reitir taka sér þó hlé í ár, en á síðasta ári gáfu aðstandendur Reita út einskonar uppskerubók, þar sem sú þekking og reynsla sem þau hafa sankað að sér síðustu ár er tekin saman í veigamiklu riti.

Mynd með færslu
 Mynd: Einkasafn  -  Alþýðuhúsið
Alþýðuhúsið á Siglufirði

Listamenn vinna sýningar inn í rýmið

Í dag heldur Aðalheiður utan um ýmsa reglulega starfsemi í húsinu, og má þar nefna sem dæmi sýningar í galleríi hússins, Kompunni. „Þar eru alltaf mánaðarlegar þriggja vikna sýningar, og svo vika á milli þar sem listamönnum gefst færi á að koma hingað, dvelja hérna hjá mér og vinna sýningarnar inn í rýmið, sem er orðið svo algengt, að listamenn vinni þannig.“ Að auki eru viðburðir sem Aðalheiður kallar Sunnudagskaffi með skapandi fólki, „og það eru litlir fyrirlestrar eða uppákomur af ýmsum toga, ekki endilega bara listamenn heldur allskonar skapandi fólk. Og þau koma og eru með klukkutíma erindi hér fyrsta sunnudag í hverjum mánuði.“

Mynd með færslu
 Mynd: Einkasafn  -  Alþýðuhúsið
Arnljótur Sigurðsson er meðal þeirra listamanna sem komið hafa fram

751 manns unnið að list í húsinu

Aðalheiður segir að í húsinu séu stærri viðburðir af og til, og geti slíkar uppákomur verið af ýmsu tagi. „Annað hvort tónleikar eða einhvers konar listasmiðjur, leikhús, danssýningar, fyrirlestrar eða ráðstefnur af einhverjum toga sem þá tengjast myndlist.“ Aðalheiður nefnir að auki sirkús. „Það er náttúrulega ekkert verra að fá sirkus heim til sín!“ Aðalheiður hefur haldið vel utan um tölfræði sýninga í húsinu, og reiknast til að 751 skapandi einstaklingur hafi tekið þátt í starfsemi hússins frá opnun.

Mynd með færslu
 Mynd: Einkasafn  -  Alþýðuhúsið
Hluti af sýningarrými hússins

„Meira en bara að vinna, éta og sofa“

Mikill uppgangur hefur verið á Siglufirði síðustu ár, ný fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa sprottið upp og fjöldi ferðamanna aukist ár frá ári. Aðalheiður segir að starfsemi hússins hafi fengið góðar viðtökur meðal íbúa á svæðinu. „Auðvitað hefur þetta mikil áhrif á bæjarfélagið, og það segir fólk sem hér hefur búið alla tíð að þetta opni auðvitað á möguleikana og opnar hugann fyrir ýmsu, bara hvað er mögulegt í lífinu. Það er hægt að gera meira heldur en bara að vinna, éta og sofa, eins og maður segir.“

„Það er hægt að njóta alls konar viðburða og sköpunar sem auðga andann. Og fólk er aðeins að átta sig á því að þetta er til staðar og sendir mikið gestina sína til mín.“ Hún segir Siglfirðinga hafa verið duglega að sækja viðburði í húsinu, en að auki fái hún gesti úr nærsveitum og frá Akureyri. „Svo er það nú bara þannig að ég var inni á Akureyri með alla mína starfsemi og tók þátt í allri uppbyggingunni þar í Listagilinu, og fólk þekkir mig af mínum verkum síðustu 25 árin, þannig að Akureyringar og nærsveitamenn koma mjög mikið hérna líka á viðburði.“

Aðalheiður Eysteinsdóttir var í viðtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2, þann 14. júlí 2017.

Mynd með færslu
Nína Richter
vefritstjórn
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi