Ekki verði sameinað nema fjármagn fylgi

26.02.2017 - 19:12
Mynd með færslu
Fulltrúar sveitarfélaganna á fundi á Djúpavogi  Mynd: Karl Friðriksson
Oddviti Djúpavogshrepps segir að ekkert verði af sameiningu þriggja sveitarfélaga á Suðausturlandi, nema til komi verulegur fjárstuðningur frá ríkinu. Engin vissa sé fyrir því í undirbúningi sameiningar hvort slíkt fjármagn verði til staðar.

Eins og RÚV hefur áður greint frá, hafa viðræður um hugsanlega sameiningu Skaftárhrepps, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Djúpavogshrepps átt sér stað síðan í fyrra. Þegar hefur talsverð vinna verið lögð í undirbúning og viðræður.

Stuðningur ríkisins stærsti óvissuþátturinn

Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps, segir að enn sé langt í land og margir óvissuþættir uppi. Ekki síst hver stuðningur ríkisins verði við nýtt sveitarfélag ef af sameiningu verður. „Stærsti óvissuþátturinn er hvort myndaður verði sameiningarpottur, eins og var gert við síðasta sameiningarátak, þar sem verulegir fjármunir úr Jöfnunarsjóði voru lagðir til með þeim sveitarfélögum sem runnu þá saman.“ Og stjórnvöld hafi ekki svarað því hvort slíkir fjármunir verða lagðir til núna. „Sem að skiptir máli, því það er algerlega ljóst að það verður ekki farið í þessa sameiningu nema fylgi verulegt fjármagn með.“

Vill sjá sterkari viðbrögð frá ríkinu

Hann segir að ríkið leggi til ákveðið fjármagn úr jöfnunarsjóði á meðan viðræður um sameiningu standa yfir og það eigi að standa undir kostnaði við allan undirbúning. En síðan sé aðkoma ríkisins engin fyrr en allri þeirri vinnu sé lokið. Öfugt við það sem tíðkast hefur við fyrri sameiningar þar sem fyrir lágu vilyrði um verulegar upphæðir. „Þannig að það væri hægt að taka það með í reikninginn, inn í vinnuna, og þá vissu menn frekar hvað þeir gætu boðið. Augljóslega væri betra að fá eitthvað sterkari viðbrögð frá ríkinu.“

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV