Ekki verða ófrískar

16.03.2017 - 15:55
epa04519461 Head coach Jan Pytlick of Denmark reacts  during the women's European Championship Group B handball match between Denmark and Ukraine in Debrecen, Hungary, 07 December 2014.  EPA/ZSOLT CZEGLEDI HUNGARY OUT
 Mynd: EPA
Jan Pytlick, þjálfari kvennaliðs HC Óðinsvéa, sem leikur í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta, segir að hann kunni illa við að leikmenn sínir verði barnshafandi skömmu eftir að þeir skrifa undir samning við félagið. Þrír leikmanna liðsins hafa orðið óléttir á tímabilinu og hefur Pytlick fengið sig fullsaddan en ummæli hans hafa vægast sagt valdið miklu fjaðrafoki.

Leikmannasamtökin í Danmörku hafa gagnrýnt Pytlick harðlega fyrir ummæli hans. „Þetta er fordæmalaust og það stangast á við almenna vinnulöggjöf að setja hvers konar pressu á starfsmann hvað varðar mögulega þungun,“ segir Michael Sahl, framkvæmdastjóri leikmannasamtakanna, við vef danska ríkissjónvarpsins DR.

Krísufundur var haldinn í höfuðstöðvum OB í dag þar sem Pytlick fundaði með leikmönnum og þjálfurum innan félagsins. Pytlick sagði að fundurinn hefði verið „góður“ en vildi að öðru leyti ekki tjá sig frekar við fréttamenn frekar en nokkur leikmaður. Jorn Bonnesen, stjórnarformaður félagsins, sagði að Pytlick nyti stuðnings stjórnarinnar.

epa04700356 Vardar Skopje coach Jan Pytlick gestures during the women's handball EHF Champions League quarterfinal second leg match between Gyor Audi ETO KC and Vardar Skopje in Gyor, 120 km west of Budapest, Hungary, 11 April 2015.  EPA/Aniko Kovacs
 Mynd: EPA

Vill bara taka umræðuna

Pytlick segir að ummæli sín sem hann lét falla á æfingu liðsins hafi verið oftúlkuð. „Samkvæmt leikmannasamtökunum á ég að hafa sagt að það væri óásættanlegt að leikmenn mínir verði barnshafandi en það er ekki rétt. Ég sagði það aldrei. Ég sagði einfaldlega að ég væri orðinn pirraður og þreyttur á ástandinu sem við erum í [eftir að hafa misst þrjá leikmenn vegna þungunar]. Þar að auki erum við án margra annarra leikmanna vegna meiðsla. Mín skoðun er einfaldlega sú að ef þú skrifar undir þriggja ára samning og verður barnshafandi innan þriggja mánaða þá sé það ekki í lagi,“ segir Pytlick sem vill þó ekki meina að skoðun hans stangist á við vinnulöggjöfina.

„Ég vil bara fá þessa umræðu í gang um stöðu kvennaíþrótta í Danmörku. Það væri frábært ef allir aðilar gætu átt heiðarlegt samtal um þunganir. Ég vil bara finna lausn sem hentar öllum, bæði leikmönnum og íþróttafélögunum.“

Samkvæmt vinnulöggjöfinni þurfa konur ekki að láta vinnuveitendur sína vita af þungun né áformum um þungun og Pytlick er meðvitaður um það.

„Þannig er það já og við þurfum að sætta okkur við það. Mér finnst bara mikilvægt að taka þessa umræðu. Aðeins framtíðin getur leitt í ljós hvort sú umræða leiði eitthvað af sér.“

epa04532901 Denmark's head coach Jan Pytlick watches the women's European Championship Main Round Group I handball match between Spain and Denmark in Debrecen, Hungary, 17 December 2014.  EPA/ZSOLT CZEGLEDI HUNGARY OUT
 Mynd: EPA

Ekki ólöglegt að spyrja um þungun

Birgit Gylling Andersen lögfræðingur segir að Pytlick sé ekki að brjóta nein lög. Það sé í raun löglegt að spyrja leikmann út í áform um þungun áður en skrifað er undir langtímasamning. „Það er hins vegar ekki löglegt að fylgjast grannt með áformum konu hvað þungun varðar þegar þú ert að taka ákvörðun um atvinnuferil hennar,“ segir Andersen.

HC Óðinsvé er í 5. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar sem telur 12 lið. Liðið hefur unnið þrjá leiki í röð eftir fjögurra leikja taphrinu.

Jan Pytlick er 49 ára og þjálfaði danska kvennalandsliðið frá 1998–2006. Undir hans stjórn urðu Danir tvisvar ólympíumeistarar, árin 2000 og 2004.

epa000264717 Danish players celebrate their coach Jan Pytlick after the team won the women's Handball final against South Korea in the penalty shoot-out after teams tied 34-34 following two extra times, Sunday 29 August 2004.
 Mynd: EPA
Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður