Ekki tekið á grotnandi innviðum skólanna

14.09.2017 - 14:08
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Engan veginn er tekið á því í fjárlagafrumvarpinu að innviðir framhaldsskóla eru að grotna í framhaldskólunum, segir formaður Félags framhaldsskólakennara. Formaður félags stjórnenda í framhaldsskólum spyr hvenær ef ekki í miðju góðæri sé besti tíminn til að treysta rekstur skólanna.

 

Forsvarsmönnum þessara tveggja stéttarfélaga framhaldskólanna líst illa engan veginn á fjárlagafrumvarpið. Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra hefur bent á að raunverulegt viðbótarframlag til skólanna í frumvarpinu næmi 81 milljón króna.

Ingi Bogi Bogason formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum segir erfitt að átta sig á áherslum ríkisstjórnarinnar í menntamálum samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. 

„Það blasir við að aðhaldskrafan hún er áfram mikil. Og mér sýnist að framlögin, þau eru ódrjúg, og þau gefa ekki ein og sér vonir um bættan framhaldsskóla.“

Ingi Bogi segir að samkvæmt hvítbók fyrrverandi menntamálaráðherra hafi með kerfisbreytingu átt að koma aukið fé í framhaldsskólana og átt að binda fjármagn við hvern nemanda:

„ Við sjáum ekki að það sé raunin. Og maður veltir því fyrir sér og spyr sig hvenær sé eiginlega rétti tíminn til þess að treysta betur rekstur skólanna en núna einmitt í miðju góðærinu. Er það ekki þá?“

Guðríði Arnardóttur formanni Félags framhaldsskólakennara líst heldur ekki á frumvarpið: 
 
„Þetta er alveg í dúr og moll við ríkisfjármálaáætlun sem kom út í vor. Og þar voru auðvitað mestu vonbrigðin að sjá það að þá á ekki að efna það loforð sem var gefið þegar að framhaldsskólinn var styttur úr fjórum árum í þrjú að halda þó því fjármagni sem myndi sparast við það inni í framhaldsskólunum þannig að það væri hægt að styrkja innviðina.“

Hún segir að í frumvarpinu sé niðurskurður frá ríkisfjármálaáætlun eins og hún hafi verið lögð fram í fyrra. Nú sé niðurstaðan að í frumvarpinu sé brugðist við umsömdum launahækkunum í framhaldsskólunum: 

„En innviðirnir eru áfram að grotna niður í framhaldsskólum landsins og það er uppsafnaður vandi sem hefur verið að byggjast upp til margra ára og það er engan veginn verið að taka á því.“
 

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV