Ekki séð verra ástand á íbúðamarkaði í 50 ár

28.03.2017 - 12:14
Ástandið á húsnæðismarkaði hefur ekki verið verra í hálfa öld, segir Sverrir Kristinsson, sem hefur starfað sem fasteignasali í Reykjavík síðan 1968. Hann segir þrennt til ráða. „Það þarf að gefa miklu fleiri lóðir byggingarhæfar, það þarf að byggja meira af tveggja og þriggja herbergja íbúðum og það þarf að byggja miklu hraðar en áður,“ segir hann.

Sverrir var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun. Hann á hálfrar aldar starfsafmæli sem fasteignasali á næsta ári. Spurður hvort neyðarástand ríkti á húsnæðismarkaði samsinnti hann því. Hann sagði verðhækkanir svo örar að mjög erfitt væri fyrir ungt fólk að safna sér fyrir sinni fyrstu íbúð.

„Segjum að ungt fólk hafi verið byrjað að safna einu, tveimur eða þremur árum, og ætlað að kaupa til dæmis tveggja til þriggja herbergja íbúð fyrir 30 milljónir, þá er hún að hækka um sex milljónir á þessu tímabili og það sem fólkið hefur safnað á þessum tíma dugir varla fyrir hækkuninni, hvað þá meiru,“ sagði Sverrir.

Finnur til með unga fólkinu

Hann sagði að ástandinu á markaðnum, þar sem framboð er mjög lítið og setið er um hverja einustu íbúð, fylgdu blendnar tilfinningar fyrir fasteignasala. „Það er náttúrulega jákvætt að geta selt eignirnar en maður hefur áhyggjur og finnur til með unga fólkinu sem getur ekki keypt,“ sagði hann.

Sverrir furðaði sig á því að fólk sem leigir húsnæði fyrir háar fjárhæðir, jafnvel 250.000 krónur á mánuði, fái ekki greiðslumat fyrir húsnæðislán. Miðað við að fólk þoli slíka greiðslubyrði í hverjum mánuði ætti það að standast greiðslumat fyrir 66 til 67 milljóna króna íbúð.

„Þetta varðar náttúrulega stefnu stjórnvalda. Á fólk hér almennt að vera leiguliðar eða á að vera rekin hér sjálfseignarstefna?“ spurði Sverrir. Leigustefnan væri rándýr.

 

 

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi