Ekki lesa, nei, vertu í símanum, litla blómið

26.04.2017 - 16:02
Lestin · Pistlar · Menning
Nauðir íslenska tungumálsins eru miklar um þessar mundir. Er orsökin málsmengandi túristar, snjallsímar sem skilja ekki bofs í málinu, eða liggjar rætur vandamálsins dýpra? Halldór Armand Ásgeirsson, rithöfundur, fjallar í þriðjudagspistli sínum um stöðu íslenskunnar.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar: 

Undanfarna dagar hafa birst fréttir í erlendum miðlum af því sem í innlendum fréttum er kallað vandi íslenskunnar, já nauðir tungumálsins eru miklar um þessar mundir. Hér eru jú skyndilega kynstrin öll af ferðamönnum sem skilja ekki múkk í tungumálinu okkar og raftækin okkar deila þessum vanda með þeim. Þau skilja ekkert í okkur, ekki bofs. Ég gerði tilraun á símanum mínum núna um páskana og bað hann skilmerkilega á kjarnyrtri íslensku að finna fyrir mig Passíusálmana á netinu. Ekki stóð á svarinu. Síminn tilkynnti mér um leið að það væru engar gæludýrabúðir í grenndinni. Hann hafði skilið orðið „Passíusálmarnir“ sem Pussy Store. Hann hafði sem sagt misskilið mig alveg hrapallega, og ekki bara misskilið mig, heldur hafði hann líka rangt fyrir sér. Það var gæludýrabúð í svona 500 metra fjarlægð frá mér. Svo ég tók upp símann og sagði við hann á íslensku: „Það er vitlaust.“

Þessa setningu - það er vitlaust - skildi síminn sem Sauce Arabic List og gerði ráð fyrir að ég væri að biðja hann um lista yfir bragðgóðar arabískar sósur, og lauk þá þessari litlu tilraun minni. 

Það er sagt að stafrænn dauði íslenskunnar sé yfirvofandi, en kannski ætti frekar að segja að stafræn fæðing hennar hafi í raun aldrei farið fram. Í fréttunum af yfirvofandi dauða íslenskunnar var haft eftir Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, að verði ekkert gert í þessu máli muni íslenskan enda í ruslinu - með latínunni. Það er auðvitað alveg rétt hjá henni, en ég held hins vegar þegar að efsti dagur íslenskunnar rennur upp, þá verði hún ekki að tungumálsvofu sem er dregin fram úr skápnum á tyllidögum til að dansa föl og blóðlaus fyrir áhorfendur eins og latína. Ef og þegar íslenskan deyr, þá hverfur hún alveg, og það verður öllum líklega alveg nákvæmlega sama.

Ég elska þig, minn nettengdi salernisrúllustandur!

Nú ætla framfaraöfl heimsins sér að internetvæða heimili fólks. Spurningin er ekki hvað verður nettengt heldur hvað verður ekki nettengt. Verða blómapottarnir mínir nettengdir? Verður baðkerið mitt nettengt? Verður salernisrúllustandurinn nettengdur? Mikið óskaplega hlakka ég til þess að geta talað við klósettið mitt - spurt það hvað Hitler væri gamall í dag ef hann væri á lífi eða jafnvel horft á Youtube-vídjó á innanverðri setunni meðan ég pissa. Verður þetta kannski andartakið þegar lífsandinn yfirgefur lungu íslenskunnar í síðasta skipti, þegar ég sit á klósettinu með niðurgang og hlusta um leið á það lesa fyrir mig hljóðbók á ensku? Verður íslenskan þá endanlega farin fyrir fullt og allt?

Ég viðurkenni að ég var lengi lengi vel þeirrar skoðunar að íslenskan myndi dafna best ef hún fengi að vera í friði frá þeirri íhlutunarhyggju sem einkennir þjóðfélagið sem hún lýsir upp með ljósi sínu. Einhverju sinni lýsti ég henni í blaðapistli sem borg sem sífellt þenst út og myndar ný og ný frumleg og áhugaverð hverfi — eitt hverfið væri til dæmis íslenskt rapp í dag. Tungumálinu væri með öðrum orðum best borgið í skapandi og lifandi kaótík, en ekki með miðstýrðri þéttingarstefnu, ef svo má að orði komast. 

Ég stend alveg við þessa skoðun í dag en ég viðurkenni fúslega að í henni eru brestir. Íslenskan á undir högg að sækja og það er vegið að henni úr ýmsum áttum. Í dag er ekki óalengt að fólk með fleiri en eina gráðu úr íslenskum háskólum tali eitthvert tungumálsafstyrmi þar sem varlega áætlað 7.-11. hvert orð er á ensku. Þetta kann að hljóma eins og snobb í mér, en það verður að hafa það, svona er þetta. En ég er hreinlega ekki viss um að ég sé sammála sjúkdómsgreiningunni eins og hún hefur verið sett fram. Ég er ekki viss um að ef við skerum upp sjúklinginn þar sem hann liggur hóstandi í andarslitrunum fyrir framan Netflixseríu þá er ég ekki viss um að banaorsökin sem blasir við séu málmengandi túristar eða sú staðreynd að síminn þinn skilur ekki orðið Egilsstaðaflugvöllur. 

Ég held að vandamálið sé dýpra. Það varðar íslenska menningu í heild sinni. Menningin er ramminn utan um málnotkunina, málnotkunin er það sem þú sérð á striganum. Ef þú vilt bjarga málverki úr brennandi húsi þá reynirðu ekki að taka málninguna af striganum og setja hana í vasann, þú grípur í rammann og hleypur með hann undir handleggnum. Það er íslensk menning sem vegið er að og sárin koma ekki síst fram í tungumálinu þar sem góð íslensk orð víkja fyrir tilvísunum, hugmyndum og heilu setningunum úr til dæmis amerískum sjónvarpsþáttum. Vandamálið er ekki enskusmit í tungumálið, heldur að hugmyndaheimur fólks og lífssýn eru að nær öllu leyti byggð á óíslenskum grunni. Inni í íslenskri höfuðkúpu blómstrar glóbalíseraður enskur menningarheimur, og það getur verið erfitt að tjá þennan heim á okkar ástkæra ylhýra, sérstaklega ef þú þekkir ekki þinn eigin menningarheim.

Bækur og drykkur, munaður hinna máttugu.

Sem færir okkur að lokum að einni dapurlegustu pólitísku ákvörðun seinni tíma þegar í byrjun árs 2015 virðisaukaskattur og vörugjöld á raftækjum voru lækkuð til muna á sama tíma og virðisaukaskattur á bækur var hækkaður um næstum helming. Bækur eru dýrar á Íslandi, allt of dýrar, og urðu að sjálfsögðu ennþá dýrari við þetta. Á sama tíma lýsa stjórnvöld yfir miklum áhyggjum af því að rannsóknir sýni að ungir Íslendingar geti vart lesið Andrésblöð sér til skemmtunar. 

Þessi ákvörðun sagði mér aðeins eitt, eða staðfesti aðeins eitt öllu heldur. Þrátt fyrir allt hunangið og mjólkina sem vellur af vörum ráðamanna við hátíðleg tilefni um mikilvægi íslenskunnar, þá vilja þeir í raun og veru ekki að fólk lesi. Þeir vilja miklu frekar að fólk geti varið fjármunum sínum í raftæki og horft á Seinfeld á kvöldin. Bækur eiga að vera munaður fyrir elítu, fátækir og efnaminni eiga ekki að ástunda lestur - þetta er sama hugmyndafræði og gildir um áfengi á Íslandi, það er ekki fyrir fátæka. 

Að einhverju leyti skil ég þetta. Lestur er einfaldlega í eðli sínu ógn við ríkjandi stétt. Þannig hefur það alltaf verið. Í aldanna rás hafa bækur alltaf verið brenndar og listamenn drepnir. Þetta er bara gert á lúmskari og hagkvæmari hátt í dag. Lestur er hættulegur, hann er vekjandi, lestur eflir hugsun fólks, kveikir á perum í kollinum og kynnir það fyrir nýjum hugmyndum sem er auðvitað ekki eitthvað sem þú vilt sem ráðamaður. Þú vilt mun frekar að almenningur fái sitt ópíum í símanum sínum og horfi á enska boltann, það einfaldlega hentar þér miklu betur, og þess vegna eru svona ákvarðanir um að hækka bókaverð og lækka raftækjaverð teknar, hvort sem þeir sem taka slíkar ákvarðanir eru meðvitaðir um það eða ekki. Þetta kann að hljóma eins og bölsýni, en þetta er einlæg skoðun mín engu að síður.

Þess vegna bind ég aldrei neinar vonir við að íslenskir ráðamenn geri nokkurn skapaðan hlut til þess að stuðla að auknum lestri. Allt þetta gamalkunna mas um að við séum bókmenntaþjóð er ekkert nema ein af nokkrum viðteknum og viðvarandi afsökunum fyrir því að leyfa íslenskri menningu að blæða út. Við erum hvort sem er önnum kafin við að féfletta útlendinga. Íslenska er töluð upp einmitt í þeim tilgangi að það sé auðveldara að virða hana að vettugi. 

Við björgum ekki íslenskunni með því að kenna símunum okkar að bera fram orðið „fimleikasalur“ heldur með því að hlúa að og næra okkar eigin menningu og skilja að það sem hefur byggst upp í einangrun, og er af þeim sökum einstakt, verndar sig því miður ekki sjálft í heimi sem hafnar einangrun.

Mynd með færslu
Anna Gyða Sigurgísladóttir
dagskrárgerðarmaður
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi