„Ekkert vandræðalegt fyrir okkur“

30.03.2016 - 22:24
Formaður Samfylkingarinnar neitar því að það sé vandræðalegt fyrir flokkinn að gjaldkeri hans eigi eignir í aflandsfélagi í Lúxemborg. Stjórnarmaðurinn hafi gert grein fyrir félaginu sínu, og upplýst að það sé fullskattað.

Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, hefur greint frá því að hann eigi eignir í aflandsfélagi í Lúxemborg, en landið hefur gjarnan verið skilgreint sem skattaskjól. Vilhjálmur segir félagið fullskattað, og hann hafi ákveðið að notast við það vegna íslensku krónunnar, fjármagnshaftanna og pólitískrar og efnahagslegrar áhættu á Íslandi. Hlutir hans í sprotafyrirtækjum innanlands séu hins vegar að langmestu leyti í íslensku félagi.

„Ekki banna að eiga peninga í útlöndum“

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur harðlega gagnrýnt tengsl íslenskra stjórnmálamanna við aflandsfélög í skattaskjólum, sem upplýst hefur verið um að undanförnu. Spurður hvort aflandsfélag Vilhjálms sé vandræðalegt fyrir flokkinn, svaraði Árni Páll: „Nei, það er ekkert vandræðalegt fyrir okkur. Ég hef sagt það alveg skýrt að það er ekki samrýmanlegt við því að vera í forystuhlutverki í Samfylkingunni, að eiga fé í skattaskjóli.“

Árni segir Vilhjálm hafa gert grein fyrir félaginu sínu og upplýst um að það sé fullskattað. „Það er hans að svara fyrir það, en það er alveg skýrt hver stefna Samfylkingarinnar er og viðhorf hennar eru í þessu efni,“ segir Árni Páll í samtali við fréttastofu. „Það er ekki bannað að eiga peninga í útlöndum, en það er mikilvægt að þeir séu ekki í skattaskjóli.“

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV