Eiturlyfjaheimurinn með augum barns

Guðrún Baldvinsdóttir, bókmenntagagnrýnandi Víðsjár, er ánægð með nýju forlögin sem bjóða upp á metnaðarfullar bækur í áskrift.

Forlagið Angústúra  gaf nýlega út bókina Veisla í greninu, eftir Juan Pablo Villalobos, fyrst fjögurra þýðinga sem hægt er að gerast áskrifandi að. Gagnrýnandi Víðsjár segir að þýðing Maríu Ránar Guðjónsdóttur sé afar vönduð og hún gæti trúað því að hún sé jafnvel betri en sú enska. „Sagan lætur lítið yfir sér en kemur á óvart með bókmenntatexta sem talar aldrei hreint út,“ segir hún, „en gefur þeim mun fleiri tækifæri til þess að gefa ýmislegt í skyn og veita lesandanum frelsi til þess að tengja saman punktana.“


Guðrún Baldvinsdóttir skrifar:

Tveir nýir og spennandi bókaklúbbar forlaga hafa sprottið upp með sumarblómunum en það eru bókaklúbburinn Sólin sem forlagið Benedikt gefur út og áskrifarröð forlagsins Angústúru. Þessir klúbbar gefa út þýðingar á nýlegum verkum sem vakið hafa athygli erlendis og er þetta einstaklega gott form til þess að kynna lesendur fyrir því sem efst er á baugi í bókmenntaheiminum sem og að veita þeim lausn undan leitinni að réttu bókunum fyrir sumarfríið.

Fyrsta bókin í áskriftarröð forlagsins með skrýtna nafnið, Angústúru, kom inn um lúguna á dögunum en það er fyrsta skáldsaga mexíkóska rithöfundarins Juan Pablo Villalobos, Veisla í greninu. Skáldsaga er kannski ekki rétta orðið, enda er bókin afar stutt og væri því réttara að kalla þetta nóvellu. Villalobos hefur getið sér gott orð í Mexíkó sem og víðar en þessi fyrsta bók hans, sem á frummálinu heitir Fiesta en la mardriguera var meðal annars tilnefnd til Guardian First Book Award árið 2011.

Juan Pablo Villalobos

Sögumaður bókarinnar er ungur strákur sem lýsir lífi sínu innan veggja glæsivillu föður síns sem virðist vera háttsettur eiturlyfjabarónn. Drengurinn ungi, Tochtli, lýsir því sem fyrir augu ber með barnslegu sakleysi og smám saman víkkar sjónarhorn lesandans svo heildarmyndin kemur í ljós.

Sjónarhorn barnsins getur verið afar áhugavert tæki í skáldsögum sem þessum og gerir það að verkum að höfundurinn getur lengt þann tíma sem lesandinn er ekki með á hreinu hvað á sér stað. Úr verður ákveðin þrautabraut eftir tengingum sem barnið gerir sem hinir fullorðnu átta sig ekki endilega á.

Svipaðan stíl má sjá í bókum á borð við Furðulegt háttalag hunds um nótt, eftir Mark Haddon og Extremely Loud and Incredibly Close eftir Jonathan Saffran Foer. Munurinn þó á þessum bókum og bók Villalobos er sú að hinn ungi Tochtli er ekki hluti af vestrænni miðstéttarfjölskyldu, heldur lifir í raun súrrealísku líferni með föður sínum. Ásamt þeim feðgum búa í glæsivillunni, eða höllinni eins og Tochtli vill kalla húsið, einkakennari hans, öryggisverðir og þjónustulið auk þess sem við fáum að kynnast þeim sem líta inn sem gestir. Tochtli er haldið heima við og því eru allar upplýsingar sem hann fær um heiminn frá föður sínum, kennaranum og úr sjónvarpinu - og við þá heimssýn bætist  tortryggið viðhorf föðurins sem skekkir myndina fyrir ungum syninum. Lesandinn veit því ekki fyrr en mögulega undir lokin hverjar raunverulegar aðstæður heimilisins eru.

Tochtli er skemmtilegur og klár drengur, en höfundurinn nýtir persónueinkenni sögumannsins til þess að koma ákveðnum stíl til leiðar. Til dæmis les Tochtli alltaf í orðabókinni fyrir svefninn. Hann sjálfur er því sannfærður um að hann hafi gríðarlegan orðaforða miðað við aldur. Það kemur þó ljós eftir nokkrar blaðsíður að drengurinn kann nokkur löng lýsingarorð sem hann notar trekk í trekk. Því verður allt aumkunarvert og auðvirðilegt sem dæmi. 

Nú get ég ekki sagt til um hvort að bók Villalobos sé raunsæ, enda þekki ég lítið til eiturlyfjaheimsins í Mexíkó, annað en það sem ég byggi á fréttum af stríðum eiturlyfjagengja og bandarískum spennuþáttum. Mér þótti því í fyrstu að höfundurinn væri að mála heldur einfalda mynd af eiturlyfjabarón og hans aðstæðum. Þegar líður á bókina kemur þó annað í ljós - auk þess sem textinn gefur mjög áhugaverða innsýn inn í menningu Mexíkó. Þá má til að mynda nefna að allar persónur bókarinnar bera nöfn úr tungumáli mexíkóskra frumbyggja sem öll tákna dýr. Einnig er matur mjög áberandi í frásögninni en þetta tvennt setur karnivalískan vinkil á texta höfundarins. Eftirmáli bókarinnar og orðskýringar gefa góða baksögu fyrir nóvelluna og bætir við textann, án þess að kæfa skáldskapinn í augljósum vísunum.

Það kemur því ekki á óvart að þessi frumraun rithöfundarins Villalobos hafi komið honum á kortið í alþjóðlegu bókmenntaumhverfi. Sagan lætur lítið yfir sér en kemur á óvart með bókmenntatexta sem talar aldrei hreint út en gefur þeim mun fleiri tækifæri til þess að gefa ýmislegt í skyn og veita lesandanum frelsi til þess að tengja saman punktana. Það er líka hressandi að sjá heiminn með augum barns, þótt að Tochtli sé ekki dæmigert barn, heldur þjakaður af fortíð föður síns og aðstæðum sínum.

Það er mikið lán að forlög sjái hag sinn í að gefa út þýðingar á borð við Veislu í greninu. Forlagið Angústúra kemur inn á íslenskan bókamarkað með látum og er því nóvella Villalobos áhugavert og gott val á fyrstu bók í áskriftarröð þeirra. Þýðing Maríu Ránar Guðjónsdóttur er afar vönduð og ég gæti trúað að þýðingin sé jafnvel betri en sú enska, en María Rán rekur einnig forlagið. Hönnun Snæfríðar Þorsteins er einnig skemmtileg og öðruvísi, en kápa bókarinnar er auð og fallega teiknuð mynd af flóðhesti fylgir með í póstkortastærð, sem hentar afar vel sem bókamerki. Bókin er því eiguleg og ég bíð spennt eftir næstu bók í áskriftarröð Angústúru.

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi