„Eins og að horfa í stjörnukíki út í geiminn“

17.03.2017 - 11:03
Hún er heilluð af Mývatni og hefur skrifað fallega bók af mikilli væntumþykju um undur vatnsins, sveitina sem við það er kennt, fuglana, fiskana, fólkið og fjallahringinn. Unnur Jökulsdóttir hefur áður skrifað um náttúru, fólk og ferðalög, en sendir nú frá sér bókina Undur Mývatns. Unnur var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1.

„Þetta er svona leiðsögubók um innviði lífríkisins við Mývatn,“ segir Unnur Jökulsdóttir. Hún heillaðist af Mývatni og sveitinni í kring og hefur fengið innsýn í lífríkið vegna starfa við Náttúrurannsóknastöðina á sumrin. Hún tók viðtöl við náttúrufræðingana við stöðina og miðlar síðan þeim fróðleik í bókinni. Unnur vill ekki að öll þessi þekking lokist inni í fræðaheimi heldur miðla henni til almennings, til hins almenna lesanda.

„Þú getur lesið þarna ævisögu húsandarinnar eins og hverja aðra spennusögu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson  -  Morgunvaktin
Unnur Jökulsdóttir

Já, Unnur rýnir í alla þætti lífríkisins, segir frá fuglunum, vitjar um varp, hugar að fiski, flugum og  örverunum, sem eru undirstaða alls. „Sem er það ósýnilega í vatninu, en heill heimur. Það fannst mér svo heillandi að kynnast. Ég fékk að sækja mér vatnsdropa úr Mývatni og setja hann undir smásjá. Þar birtist nýr heimur, sem var eins og að horfa í stjörnukíki út í geiminn. Fullt af einhverjum undarlega löguðum örverum sem virðast svífa þarna um og eiga einhver samskipti. Ég reyni að lýsa þeim.“

Lífkeðjan í Mývatnssveit er viðkvæm og hefur alltaf mátt þola sveiflur, sem hafa dýpkað vegna athafnasemi mannsins við vatnið. Við bætast síðan loftslagsbreytingar, sem auðvitað hafa áhrif á lífkerfið í Mývatnssveit. Og nú er það ferðaþjónustan.

„Það gefur auga leið að miklu fleira fólk fer um sveitina og skilur eftir sig meira en fótspor. Þetta þarf að taka virkilega til athugunar og skoða.“

En hefur Unnur áhyggjur að við séum að fara of geyst? „Já, ég er búin að hafa áhyggjur í mörg ár. Ekki bara vegna Mývatns, heldur alls Íslands. Ég held að flestir hafi áhyggjur. Um leið og við viljum opna landið og bjóða alla velkomna og leyfa fólki að njóta okkar stórfenglegu náttúru, þá sjáum við afleiðingarnar þegar allt í einu streymir svona mikill fjöldi fólks um landið.“ Í Mývatnssveit stendur til að gera úrbætur í frárennslismálum en gera má betur í frágangi samgöngumannvirkja í sveitinni – til að verja viðkvæma náttúruna og tryggja eðlilega aðkomu ferðafólks.

Undur Mývatns er eiginlega ákall til fólks um að það líti sér nær, hugi að því undri sem lífríkið er – aææt smátt og stórt. „Ég vildi skoða innviði lífríkisins. Ef fólk fæst til að lesa um það, þá myndi það skilja betur þetta viðkvæma samhengi í lífríkinu og náttúrunni.“

Bókina prýða vatnslitamyndir eftir Árna Einarsson og Margaret Davies. Mál og menning gefa út bókina.

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi