Einn lést í mótmælum í dag - 32 fallnir í allt

An anti-government protester picks up a tear gas canister fired by security forces during a march against Venezuelan President Nicolas Maduro's decree to rewrite the constitution in Caracas, Venezuela, Wednesday, May 3, 2017. (AP Photo/Fernando Llano
Mótmælandi hylur andlit sitt og skýlir vitum undir táragas-skýi á götum Caracas  Mynd: AP
Bolivarian National Guard officers chase anti-government protesters attempting to reaching the National Assembly in Caracas, Venezuela, Wednesday, May 3, 2017. Driving the latest outrage is a decree by Venezuelan President Nicolas Maduro to begin the
Bólivaríska þjóðvarðliðið freistar þess að elta uppi mótmælendur  Mynd: AP
Anti-government protesters use homemade shields as they face off with security forces blocking their march from reaching the National Assembly in Caracas, Venezuela, Wednesday, May 3, 2017. Driving the latest outrage is a decree by Venezuelan President
 Mynd: AP
Einn ungur maður lést í átökum í framhaldi af mótmælum gegn stjórn Nicolasar Maduros, Venesúelaforseta, í höfuðborginni Caracas í dag. Þar með hafa 32 týnt lífinu í mótmælum og átökum síðustu vikna í Venesúela. Þar fóru víða fram fjölmenn og afar hörð mótmæli í dag. Sumstaðar leystust mótmælin upp í blóðug átök við lögreglu og öryggissveitir, sem svöruðu grjótkasti og eldsprengjum mótmælenda með táragasi, háþrýstidælum og svokölluðum gúmmíkúlum.

Heitið er þó villandi, því ósjaldan eru gúmmíkúlur óeirðalögreglu gúmmiklæddar málmkúlur sem geta hæglega valdið alvarlegum meiðslum og jafnvel dauða.

Í Caracas gengu þúsundir mótmælenda í átt að þinghúsi landsins. Gangan fór friðsamlega af stað, en þegar nær dró miðborginni hófust átök milli hluta mótmælenda og lögreglu, með fyrrgreindum afleiðingum.

Síðustu daga hafa mótmælendur ítrekað lokað götum og þjóðvegum, ýmist með vegartálmum, bálköstum eða mannlegum keðjum. Nestor Reverol, innanríkis- og dómsmálaráðherrann í stjórn Maduros, varaði mótmælendur í dag við því, að ólögmæt lokun þjóðvega væri ólöglegt athæfi sem gæti kostað fólk allt að átta ára fangelsisdóm.

Mótmæli og uppþot síðustu vikna hófust fyrir alvöru þegar hæstiréttur kvað upp úrskurð í marslok, sem miðaði að því að sniðganga löggjafarvald þjóðþingsins, þar sem andstæðingar Maduros hafa meirihluta. Þeim úrskurði var snúið við skömmu síðar, en það var um seinan, reiðialdan var risin. Í ræðu sem Maduro flutti 1. maí tilkynnti hann aðra aðgerð, sem í raun miðar að því sama og hinn ógilti úrskurður hæstaréttar, nefnilega að sniðganga þjóðþingið við lagasetningu. Hann hyggst efna til kosninga þar sem kjósa á 500 mann stjórnlagaráð, sem ætlað er að semja nýja stjórnarskrá fyrir landið - án aðkomu þingsins. Þessi tilkynning hans hefur virkað sem olía á þann heita óánægjueld sem logar meðal mikils hluta landsmanna. 

Einhver þreyta virðist þó vera komin í mótmælendur eftir margra vikna mótmæli, óeirðir og átök, því fjöldi þátttakenda stóð hvergi nærri undir vonum leiðtoga stjórnarandstæðinga, sem höfðu boðað til "risamótmæla" um land allt. Mun færri gegndu hins vegar kalli þeirra nú en oft áður.