Einlægt og heiðarlegt verk

Sváfnir Sigurðarson gefur hér út sína fyrstu sólóplötu, Loforð um nýjan dag, studdur einvalaliði hljóðfæraleikara sem kalla sig Drengirnir á upptökuheimilinu. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í plötuna sem er fyrsta plata vikunnar á Rás 2 þetta árið.  

Eitt af því sem gerir þessa vinnu þess virði eru plötur eins og þessar. Einyrkjar sem hafa tónlistina í blóðinu og þurfa sem betur fer að koma henni frá sér á einhverjum punkti. Þegar menn standa, þó ekki sé nema hæfilega, utan við bransann er oft eins og pressa um að fylla upp í eitthvað fyrirfram ákveðið mót detti niður, og tónlistin verður þá, á einhvern hátt, frjálsari.

Víða við

Sváfnir Sigurðarson hefur komið víða við í tónlistinni, hefur starfað með sveitum eins og Kol og Mönnum ársins og gefið út á þeim vettvangi. Þá hefur hann og samið tónlist fyrir leiksýningar og stuttmyndir. Drengirnir á upptökuheimilinu eru þeir Eðvarð Lárusson gítarleikari, Kristján Freyr Halldórsson trommuleikari, Pálmi Sigurhjartarson píanóleikari og Tómas M. Tómasson bassaleikari. Sváfnir syngur og spilar á gítar, mandólín og munnhörpu. Mannval mikið hvað varðar undirspil eins og sjá má og sveitin fyllir afskaplega vel upp í tónsmíðarnar sem eru bornar á borð fyrir hana. Eðvarð Lárusson er t.a.m. ein ósungnasta gítarhetja landsins og hrein unun að hlýða á leik hans. Lagasmíðalega mætti lýsa plötunni sem söngvaskáldaplötu, „singer songwriter“ eins og enskir kalla það.

Sannfærandi

Sváfnir er lunkinn lagasmiður en smíðarnar nokk ólíkar innbyrðis. Bera þess jafnvel merki að vera samtíningur frá hinum og þessum tímaskeiðum. Bestur er hann þegar hann gerist ofureinlægur, í lögum sem eru hámelódísk og áferðarfalleg. Ég nefni t.a.m. upphafslagið, „Tapað fundið“, virkilega sterk smíð og þar kemur bandið virkilega vel inn líka. Sama má segja um titillag plötunnar og „Burtséð frá því“ sem inniheldur styrkjandi línur eins og „Burtséð frá því/hvað lífið tekur í/Skaltu fagna því/að þú situr í“. Söngur hans í þessum lögum er sannfærandi, maður leggur við hlustir og hrífst með. En platan inniheldur og grallaralegri lög, þar sem undirtónninn er þyngri og kaldhæðnari. Þessir sprettir eru ekki jafn sannfærandi eða skemmtilegir. Lög eins „Malbiksvísur“, þar sem gömul sumarvinna er rifjuð upp get ég ímyndað mér, „Úlfur“ og „Sópum undir teppið“ eru ekki að gera sig jafn vel. Textinn í síðastnefnda laginu er reyndar vel til fundinn, flott skrif um hvernig okkur mannskepnunni er stundum fyrirmunað að takast ærlega á við hlutina. Textalega er Sváfnir mestanpart á tilvistarpælingalegum nótum út plötuna, verðugar vangaveltur um tilgang þessa alls og kemst hann vel frá þeim þætti. Einlægt og heiðarlegt verk þegar allt er saman tekið.