Einkaaðilar fá 3 prósent úr ferðamannasjóði

16.03.2017 - 13:07
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkið og stofnanir þess fá þrjátíu prósent af úthlutun Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, eða rúmar 175 milljónir króna. Sveitarfélög fá 67 prósent af úthlutunarfénu, rúmar 405 milljónir, einkaaðilar fá tæpar 20 milljónir, þrjú prósent, og sjálfseignarstofnanir fá eitt prósent, sjö og hálfa milljón króna. Alls var úthlutað 610 milljónum króna í Framkvæmdasjóðnum.

Beðið um 3,4 milljarða

237 umsóknir bárust um styrki upp á tæpa 3,4 milljarða króna. Stjórn sjóðsins lagði til að 58 verkefni yrðu styrkt um alls 610 milljónir og samþykkti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, tillögu stjórnarinnar óbreytta. Listi yfir úthlutanir var kynntur í gær.

Stærstur hluti styrkjanna fer til Suðurlands, tæp 30 prósent og síðan til Vesturlands, 22 prósent. Höfuðborgarsvæðið og Norðurland vestra fá minnsta styrki, þrjú prósent hvor, eða á bilinu 18 til 21 milljón.

Geysir á toppnum hjá ríkinu

Umhverfisstofnun, Landgræðslan, Skógræktin og Vatnajökulsþjóðgarður eru þær ríkisstofnanir sem fá hæstu styrkina og trónir Geysir þar á toppnum. Umhverfisstofnun fékk 30 milljónir til að gera stíga og útsýnispalla við Geysi. Stofnunin fékk síðan 22 milljónir vegna bílastæði við Hraunfossa, 20 milljónir í útsýnispall við Dynjanda og 12 milljónir vegna göngustígs á Laugaveginum undir Brennisteinsöldu.

Landgræðslan hlaut 25 milljónir vegna bílastæða og leiðamerkingar við Dimmuborgir og Skógræktin fékk 15 milljónir til að laga gönguleiðir um Þórsmörk. Vatnajökulsþjóðgarður hlaut 15 milljónir fyrir göngustíg við Dettifoss og aðrar 15 fyrir upplýsingahús gesta við Öskju.

Landmannalaugar fá mest hjá sveitarfélögum

Rangárþing ytra var það sveitarfélag sem hlaut hæsta styrkinn, 60 milljónir vegna bættrar aðstöðu við Landmannalaugar. Snæfellsbær fékk rúma 31 milljón vegna stíga og bílastæða við Rauðfeldsgjá, Akranes fékk 30 milljónir fyrir Guðlaug við Langasand og Þingeyjarsveit fékk tæpar 29 milljónir til að laga stíga, útsýnispalla og fleira við Goðafoss.

Alls hlutu verkefni í eigu ríkis eða sveitarfélaga 477 milljónir króna í styrk, eða 78 prósent af heildarfénu.

20 milljónir í öryggismál við Reynisfjöru

Aðstaða við Reynisfjöru er titlað sem sérverkefni í kynningu ráðherra vegna úthlutunarinnar. Þar segir að vinnuhópur innan Stjórnstöðvar ferðamála hafi lagt til að þróuð yrði ölduspá og viðvörunarkerfi fyrir Reynisfjöru og Kirkjufjöru svo hægt verði að spá fyrir um hættulegar aðstæður. Sú spá muni heyra undir kerfi Vegagerðarinnar og í því felist þróun hugbúnaðar, dýptarmæling, uppsetning á búnaði og fleira. Þá eigi að flagga í fjörunni við hættulegar aðstæður og gæsla mögulega aukin. Kostnaður vegna þessa hljóðar upp á 20 milljónir króna og mun Ferðamálastofa ganga til samninga við Vegagerðina um verkefnið. Verkefnið verður fjármagnað af fé sem sett var til hliðar úr Framkvæmdasjóði 2016 í þágu öryggismála. Stefnt er að dýptarmælingum í sumar og uppsetningu á viðvörunarbúnaði í kjölfarið.

Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Helgi Valsson  -  RÚV

Yfir helmingur til staða í Landsáætlun

Vegna nýrrar Landsáætlunar umhverfisráðherra mun hlutverk Framkvæmdasjóðsins breytast. Landsáætlunin verður lögð fram sem skammtímaáætlun fyrir árið 2017 og verður hlutverki sjóðsins breytt í framhaldinu til þess að koma í veg fyrir skörun, en hann mun áfram sinna verkefnum á ferðamannastöðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Rúmur helmingur styrkjanna, eða 52 prósent, renna til staða sem eru í drögum að skammtímaáætlun Landsáætlunar fyrir árið 2017.

Langmestu úthlutað 2015

Lögbundið hlutverk Framkvæmdasjóðs ferðamála er að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón. Leitast á við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda íslenska náttúru. Þá á að stefna að því að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga út álagi á fjölsótta ferðamannastaði.

Séu úthlutanir sjóðsins skoðaðar undanfarin ár sést að langmestu var úthlutað árið 2015, rúmum milljarði króna. Í fyrra var úthlutað 647 milljónum, en minnstu árið 2012, þá 75 milljónum. Síðan þá hefur tæpum þremur milljörðum króna verið úthlutað til uppbyggingar á ferðamannastöðum, að undanskildu árinu í ár, og þar af hafa um 1,8 milljarðar verið greiddir út.

Sem dæmi um fyrri verkefni er Goðafoss tiltekinn í kynningu ráðherra, en styrkjum hefur fjórum sinnum verið úthlutað til svæðisins, meðal annars í stíga, útsýnispalla og aðrar endurbætur. Gangstígur og brú við Bjarnarfoss í Staðarsveit er líka nefnt sem dæmi, stígur og útsýnispallur til að bæta aðgengi og öryggi við Eldgjá í Vatnajökulsþjóðgarði og hönnun og smíði þjónustuhúss við Dyrfjöll, sem hlaut Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2016.

 

Mynd með færslu
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV