Einhvers konar leit hefur alltaf leitað á mig

28.06.2017 - 17:08
... jafnframt er áleitin í ljóðagerð minni einhvers konar leit, segir Þorsteinn frá Hamri í viðtali um ljóðabók sína Núna sem var bók vikunnar skömmu eftir að hún kom út síðastliðið haust. Á sunnudag verður þessi þáttur endurtekin en þar ræðir Jórunn Sigurðardóttir við þau Hermann Stefánsson og Björk Þorgrímsdóttur um bókina.

 

Haustið 2016 sendi Þorsteinn frá Hamri frá sér sína 21. ljóðabók sem heitir Núna og var bók vikunnar í nóvembermánuiði það ár. Enginn ljóðabóka Þorsteins hefur borið svo stuttan, skorinorðan en jafnframt margræðan titil. Þátturinn um ljóðabókina Núna þar sem Jórunn Sigurðardóttir ræðir við rithöfundana Hermann Stefánsson og Björk Þorgrímsdóttur um bókina.

Í ljóðabókinni núna yrkir Þorsteinn frá Hamri eins og ævinlega ljóð full af sterkum myndum og áleitnum undirliggjandi spurningum og hugsanakveikjum; ljóð sem höfða til skynjunar okkar fremur en skilnings um leið og þau næra einhvern óræðan skilning á grundvallar spurningum um eilífðina, lífið og skáldskapinn, gróandann og söguna alla.

Ljóðabókin Núna er ekki þykk bók. Hún skiptist í tvo kafla. Sá fyrri sem er snöggtum lengri ber yfirskriftina I en sá síðari sem telur aðeins fjögur ljóð nefnist „Manstu“. Hér má heyra Þorstein flytja nokkru ljóð og eru þau flest úr fyrri hluta bókarinnar. Eitt, það allra síðasta í síðari lestrinum er úr síðari hluta bókarinnar og síðasta ljóðið í bókinni. Einnig má hlusta á viðtal við Þorstein um þessa bók, um leið hans til skáldskaparins, um skóginn í bókum hans og leitina.

Þorsteinn frá Hamri var rétt um tvítugt þegar fyrsta ljóðabók hans Í svörtum kufli kom út árið 1958. Síðan hefur hann sent frá sér ótal ljóðabækur sem og nokkrar skáldsögu, bækur með sagnaþáttum auk þess sem hann  þýddi talsvert af bókum um tíma, einkum barnabækur og klassísk ævintýri. 

 

 

 

 

Mynd með færslu
Jórunn Sigurðardóttir
dagskrárgerðarmaður
Bók vikunnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi