Eignarnám vegna Kröflulínu heimilt

16.03.2017 - 17:24
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Íslenska ríkið og Landsnet voru í dag sýknuð af kröfu landeigenda í Reykjahlíð, um að heimild sem Landsnet fékk til eignarnáms vegna Kröflulínu 4 og 5 yrði gerð ógild.

Í niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur segir að Landsnet hafi reynt með fullnægjandi hætti að semja við landeigendurna bæði fyrir og eftir að beiðni um eignarnám var lögð fram. Þá hafi þeir fengið næg tækifæri til að koma að andmælum vegna eignarnámsins.

Landeigendurnir sem kærðu útgáfu heimildarinnar til eignarnáms voru tveir, en áður hafði Landsnet náð samningum við 17 landeigendur í óskiptu landi Reykjahlíðar. Nú þegar dómurinn er fallinn hefur Landsnet heimild til að leggja Kröflulínu 4 alla þá leið sem fyrirhuguð er, að því gefnu að úrskurði héraðsdóms verði ekki vísað til Hæstaréttar.

Ekki náðist í Sigfús Illugason, annan landeigandanna sem kærði, en í viðtali við fréttastofu vorið 2016 sagðist hann vilja að farið yrði aðra leið með línurnar.