Eignanám vegna Kröflulínu staðfest

15.06.2017 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason  -  RÚV
Eignanám Landsnets vegna Kröflulínu 4 og 5 stendur samkvæmt dómi Hæstaréttar í dag. Þetta er sama niðurstaða og fékkst í héraði. Landeigendur í Reykjahlíð í Mývatnssveit höfðu krafist þess að heimildin sem atvinnuvegaráðuneytið veitti Landsneti til eignanámsins yrði felld út gildi.

Atvinnuvegaráðuneytið veitti Landsneti heimild til eignanámsins í október síðastliðnum en undirbúningur fyrir línulögnina hefur staðið mun lengur. Línurnar tvær liggja frá Kröflu að Þeistareykjavirkjun um land Reykjahlíðar. 

Landeigendurnir kröfðust þess að ákvörðun atvinnuvegaráðuneytisins yrði dæmd ólögmæt, meðal annars á þeim forsendum að nóg væri að leggja eina línu miðað við þær forsendur sem gefnar væru í kerfisáætlun Landsnets. Þá töldu landeigendur einnig að kostir jarðstrengs hefðu ekki verið kannaðir nægilega og að andmælaréttur hefði verið virtur að vettugi. Á þetta féllst dómurinn ekki og því var Landsnet sýknað af kröfum landeigenda. 

Uppfært kl. 16:56

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir í tilkynningu sem Landsnet hefur sent frá sér að það sé aldrei gott að þurfa að óska eftir eignarnámi. Dómurinn feli í sér staðfestingu á því að rétt hafi verið staðið að undirbúningi ákvörðunar um að heimila eignarnám og að undirbúningur framkvæmdarinnar hafi verið án annmarka. 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV