Eign lífeyrissjóða rýrnað um 11,8 milljarða

08.08.2017 - 18:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eign lífeyrissjóða í Högum hefur rýrnað um tæpa tólf milljarða í sumar. Gengi bréfa í Högum lækkaði um rúm sjö prósent í dag og hefur lækkað um þriðjung síðan Costco opnaði í maí. Markaðsvirði fyrirtækisins hefur þar með lækkað um tæpa 22 milljarða. Lífeyrissjóðir eiga meira en helming í Högum.

Bréf í Högum lækkuðu um 7,2 prósent í dag, á fyrsta degi viðskipta í Kauphöllinni eftir að félagið sendi frá sér afkomuviðvörun á föstudag. Í henni sagði að bráðabirgðauppgjör fyrir júlí sýndi samdrátt í sölu. Finnur Árnason, forstjóri Haga, staðfesti í samtali við fréttastofu í gær að þessi staða væri meðal annars vegna Costco. Hagar eiga meðal annars verslanir Hagkaups, Bónuss, Zöru og Útilífs, kjötvinnsluna Ferskar kjötvörur og birgjana Banana ehf. og Aðföng.

Titrings gætti á íslenskum smásölumarkaði eftir að Costco tilkynnti um það 2015 að opnuð yrði verslun hér á landi. Í fyrrasumar seldu nokkrir lykilstjórnendur Haga og makar þeirra bréf sín í fyrirtækinu, samtals fyrir hundruð milljóna króna.

Gengi bréfa í Högum hækkaði þó frá júlí 2015 fram í maí í ár, en frá því að Costco opnaði verslun sína í Kauptúni 23. maí síðastliðin hafa bréf í Högum hins vegar lækkað um 32 prósent, úr 54 krónum á hlut í 36,5 í dag, og við það hefur markaðsvirði fyrirtækisins lækkað úr 64,7 milljörðum í 42,8, um 21,9 milljarða króna.

Lífeyrissjóðir eiga samtals yfir 54 prósent í Högum. Þeirra stærstir eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, þar sem A- og B-deildin eiga samanlagt um sextán og hálft prósent, Gildi með tæp þrettán prósent og Lífeyrissjóður verslunarmanna á tæp 7,2 prósent. Samanlagður eignarhlutur lífeyrissjóðanna hefur samkvæmt þessu rýrnað að virði um meira en 11,8 milljarða króna í sumar.

Finnur Árnason bendir á að unnið hafi verið að miklum breytingum og endurbótum á verslunum Haga undanfarið sem hafi kostað sitt og dregið úr tekjum. Þannig hefur verslun Hagkaups á efri hæð Kringlunnar til dæmis verið lokað til að rýma fyrir verslun H&M og þeirri á neðri hæðinni breytt og verslunin í Smáralind endurbætt, auk þess sem Hagkaupsverslunin í Holtagörðum hefur verið minnkuð til muna.