Eiga að taka á sig rögg og lækka vexti

03.05.2017 - 13:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjármálaráðherra segir að peningastefnunefnd eigi að taka á sig rögg núna í maí og lækka vexti myndarlega. Hann segir lægri vextir hér á landi vera keppikefli margra, kannski nærri allra, og því eigi nefndin næsta leik. 

 

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar skrifar pistil á heimasíðu flokksins í tilefni af því að 111 dagar eru frá því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tók til starfa. Benedikt kemur víða við en vextir eru honum hugleiknir. Hann segir að lægri vextir hér á landi séu keppikefli, háir vextir stuðli að háu gengi krónu, gengi sem sé svo hátt að ferðaþjónusta, sjávarútvegur og allar greinar sem keppi við útlönd eða selji þangað vöru eða þjónustu séu að kikna undan álaginu. 

Fjármálaráðherra segir að hann segi Seðlabankanum auðvitað ekki fyrir verkum en hann geti sagt sína skoðun. Því segir hann að nefndin, það er peningastefnunefnd, ætti að taka á sig rögg núna í maí og lækka vextina myndarlega. Hún geti alltaf hækkað þá aftur næst, ef henni finnist viðbrögð hagkerfisins of ofsafengin.

Benedikt segir háa vexti og hátt gengi krónu vera það eina sem hann hafi haft áhyggur af þessa 111 daga. Auðvitað hafi margt annað komið upp en gengið sé eins og hamfarir sem fjármálaráðherra fái ekkert ráðið við. Vissulega hafi ríkisstjórnin gert margt til að sporna við gengisstyrkingu eins og að aflétta höftum, borga niður erlendar skuldir, boða skattahækkun á erlenda ferðamenn, hvetja lífeyrissjóði til að flytja fé úr landi og boða aukinn afgang á ríkisfjármálum. Þetta virki hins vegar eins og að skvetta vatni á gæs, vaxtatækið sé enn ónotað og því ráði Seðlabankinn, eða öllu heldur peningastefnunefndin sem eigi næsta leik. Þess má geta að vaxtaákvörðun Seðlabankans er 17. maí næstkomandi. 
 

 

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV