„Ég virðist nærast á hamagangi“

Ilmur Stefánsdóttir
 · 
Kastljós
 · 
Menningin
 · 
Myndlist
 · 
Panik
 · 
Menningarefni

„Ég virðist nærast á hamagangi“

Ilmur Stefánsdóttir
 · 
Kastljós
 · 
Menningin
 · 
Myndlist
 · 
Panik
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
16.02.2017 - 16:50.Bergsteinn Sigurðsson.Menningin, .Kastljós
Hafnarhúsið virðist vera að láta undan þrýstingnum og leggjast saman á sýningunni Panik, sem Ilmur Stefánsdóttir opnaði í Listasafni Reykjavíkur fyrir skemmstu.

„Ég virðist nærast á hamagangi,“ segir Ilmur en Panik er sýning um eirðarleysi og endalaus hlaup. „Við sjáum mismunandi skrokka erfiða, maður veit ekki alveg hver tilgangurinn er, það verður hver og einn að lesa út úr því.“ 

Er ekki ein á hamstrahjólinu

Ilmur hefur löngum unnið með ýmis tæki og stökkbreytt þeim, eins og hún kallar það, til dæmis breytt farartækjum úr einu í annað. „Núna er ég að vinna nátengt með rýmið, arkitektúr hússins. Hér er loftræstikerfi sem ég hef framlengt og víkkað út. Það er útfelling bæði úr húsinu og þessum skrokkum sem kemur út í formi salts og flæðir út úr öllum ristum, loftræstistokkum og verkunum.“ 

Ilmur vonar að sýningargestir spegli sig í hamaganginum. „Ég hef á tilfinningunni að það séu fleiri en ég að hamast og fyllist þessari „panik“-tilfinningu að ná ekki utan um líf sitt. En ég held að það geti líka verið svolítið þægilegt að horfa á þessa sýningu. Viðstöðulaus hreyfing er líka ákveðin hugleiðsla, þannig að þetta er einhvers konar mótsögn líka.“

Mörk myndlistar og leikmyndahönnunar að hverfa

Ilmur hefur starfað jöfnum höndum sem myndlistarmaður og leikmyndahönnuður og segir að mörkin þar á milli séu smám saman að hverfa.

„Mér finnst það mjög þægileg tilfinning. Ég byrja að vinna með ýmis konar hluti sem í leikhúsinu heita leikmunir en í myndlistinni heita skúlptúrar. Smátt og smátt hefur þetta tengst meira og meira. Í leikhúsinu vinnur maður með hópi af fólki, þar eru margir höfundar. Í þessu tilfelli sprettur upphafið innan úr sjálfri mér en engu að síður getur útkoman verið nátengd.“ 

Rætt var við Ilmi í Menningunni í Kastljósi.