„Ég varð persónuleikalaus“

Heiðar Logi Elíasson er fyrsti atvinnumaður Íslendinga á brimbretti. Norður Atlantshafið er hans annað heimili en í ísköldum sjónum, innan um ógnvænlegar öldur, unir hann sér best. Segja má að sjórinn hafi beislað orkuna í honum því hann greindist ungur með ofvirkni og athyglisbrest. Dönsk skólayfirvöld mæltu með því að hann yrði lagður inn á barnageðdeild þegar hann bjó með foreldrum sínum þar í landi og hann segist hafa týnt sjálfum sér þegar hann byrjaði að taka Rítalín.
Mynd með færslu
 Mynd: Ísþjóðin  -  RÚV

Heiðar Logi ræðir opinskátt um raskanir sínar í Ísþjóðinni með Ragnhildi Steinunni á sunnudagskvöld. „Ég var náttúrulega settur á Rítalín alveg um leið og var á Rítalíni í tíu ár. Í byrjun hjálpaði það mér rosalega mikið, ég náði að læra meira en ég hafði gert áður en mér leið aldrei vel. Ég varð persónuleikalaus og fannst ég ekki geta verið ég sjálfur,“ segir Heiðar Logi.

Mynd með færslu
 Mynd: Elli Thor  -  66N

Heiðar Logi ákvað að fara sínar eigin leiðir til þess að ná tökum á þeim röskunum sem hann glímdi við og hætti á Rítalíni sextán ára gamall. Það hafði mikil áhrif á námsgetu hans og samskiptafærni. Hann hætti í skóla og átti erfitt uppdráttar. „Ég þurfti að kynnast mér algjörlega frá byrjun. Ég hafði náttúrulega verið á Rítalíni í tíu ár þannig að persónan sem kom fram var allt önnur“, segir hann. Hann segist hafa fundið sjálfan sig með því að leita inn á við, stunda jóga, borða hreina fæðu og beina orku sinni að brimbrettaíþróttinni. Ísþjóðin með Ragnhildi Steinunni er á dagskrá RÚV á sunnudag kl. 20.20.​

Mynd með færslu
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Ísþjóðin með Ragnhildi Steinunni