„Ég er ekki hrædd við margt“

Bókmenntir
 · 
Kvikmyndir
 · 
Morgunvaktin
 · 
Menningarefni

„Ég er ekki hrædd við margt“

Bókmenntir
 · 
Kvikmyndir
 · 
Morgunvaktin
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
05.05.2017 - 11:21.Óðinn Jónsson.Morgunvaktin
Frumsýnd verður í kvöld kvikmynd sem gerð er eftir sögu Yrsu Sigurðardóttur „Ég man þig,“ sem naut mikilla vinsælda þegar hún kom út árið 2010. Það kemur ekki á óvart að þessi saga skuli kvikmynduð. Hún er æsispennandi og rændi marga lesendur nætursvefni. Segir þar af voveiflegum atburðum, óhugnaði og draugagangi. Yrsa hefur séð þessa mynd Óskars Þórs Axelssonar eftir sögu hennar og var mjög ánægð. Hún var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1.

„Mér fannst hún alveg frábær. Ég var spennt, búin að bíða svo lengi,“

sagði Yrsa Sigurðardóttir, sem fór á forsýningu myndarinnar með opinn huga, full eftirvæntingar. Ákveðin úrvinnsla á söguefninu kom höfundi bókarinnar skemmtilega á óvart, en í kvikmynd þarf auðvitað að laga söguefni að þeim miðli.

„Þegar það gerðist var ég eins og aðrir áhorfendur í salnum. Vissi ekkert hvað tæki við. Ég fékk upplifunina frá þeim tímapunkti eins og hver annar áhorfandi – sem var mjög gaman.“

Auðvitað var Yrsa Sigurðardóttir ánægð með sterk viðbrögð við bókinni „Ég man þig,“ að fólk hefði orðið andvaka, ekki getað klárað hana, sett bókina í frystikistuna eða út í bíl. „Þá varð ég mjög glöð. Takmarkinu var náð.“ Hún segir að auðvelt sé að skjóta framhjá markinu þegar sögð er drauga- eða hryllingssaga. „Ég var mjög kvíðin vegna viðtakanna og þær komu mér skemmtilega á óvart.“ En varð hún sjálf hrædd á sýningu kvikmyndarinnar eftir sögu hennar? „Mér brá tvisvar. En ég er nú þannig að ég er ekki hrædd við margt.“ Yrsa hrósar því hvernig tekst í kvikmyndinni að skapa andrúmsloft um að eitthvað slæmt sé að fara að gerast, tilfinningu sem hafi lifað með henni fram á næsta dag.Á Morgunvaktinni ræddi Yrsa draugasagnahefðina á Íslandi. Hún segir mikilvægt að draugurinn hafi eitthvert hlutverk, flytji einhver skilaboð, sé ekki bara til ama og leiðinda. Sterkustu draugasögurnar að hennar mati eru sögur á borð við „Móðir mín í kví, kví“ og „Djákninn á Myrká,“ sem uppfylla þetta skilyrði – að flytja lifendum skilaboð. Draugasögur verði að hafa tilgang. Um glæpasögur gildir að óhæfuverkin verða að vera trúverðug, þó þau endurspegli ekki bókstaflega samfélagið, eða séu algeng. „Þetta gæti gerst,“ er það sem gildir, segir Yrsa. Ef atburðir eru kjánalegir, fjarstæðukenndir, þá hefur höfundi mistekist.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Ég man þig“ hentar vel til kvikmyndunar vegna þess hvernig hún er uppbyggð. Eins og Yrsa Sigurðardóttir bendir á, þá er hið vonda yfirvofandi, eitthvað slæmt er að fara að gerast. En um flestar spennusögur gildir að þær henta betur til úrvinnslu í sjónvarpsþáttum. Í þeim gerist eitthvað slæmt í byrjun og síðan er leitað svara og lausna. Sigurjón Sighvatsson, sem keypti framreiðsluréttinn til kvikmyndunar á „Ég man þig,“ tryggði sér jafnframt réttinn á að búa til sjónvarpsþætti eftir sex sögum Yrsu um lögmanninn Þóru og málin sem hún leitar lausna á. Framleiðsla þessara þátta er í undirbúningi. En sjálf hefur Yrsa yfirgefið Þóru. Í hennar nýja teymi eru Huldar og Freyja, lögga og sálfræðingur. Fjórða bókin er í smíðum. „Ætli þær verði ekki sex,“ segir Yrsa.

Á Morgunvaktinni ljóstraði Yrsa upp um það að jafnvel þótt í smíðum væri fjórða bókin um Huldar og Freyju, þá væri hugsanlegt að hún tæki annað söguefni fram fyrir.

„Eftir að hafa séð myndina, hugsaði ég: Gaman væri að skrifa aðra draugasögu. Ég ákveð um helgina hvort ég set fjórðu bókina í salt og skutla í eina draugasögu.“

Yrsa ætlar sem sagt að nota góða veðrið um helgina til ákveða hvort hún segir nýja draugasögu. „Það góða er að þetta fer allt fram í höfðinu á manni, það er hægt að vera úti í sólinni á meðan eða labba með hundana.“ Yrsa Sigurðardóttir ætlar að halda sig enn um sinn við glæpi og draugagang, en það freistar hennar líka að skrifa heimsenda- og vísindaskáldskap. Yrsa hefur ekki sagt sitt síðasta á vettvangi skáldskaparins.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Yrsa hlakkar til að láta hræða sig

Innlent

Yrsa og Geirmundur meðal nýrra orðuhafa

Menningarefni

Yrsa best að mati Sunday Times