„Ég átti frekar dramatísk unglingsár“

Guðmundur Arnar Guðmundsson
 · 
Hjartasteinn
 · 
Kvikmyndir
 · 
Menningin
 · 
Menningarefni

„Ég átti frekar dramatísk unglingsár“

Guðmundur Arnar Guðmundsson
 · 
Hjartasteinn
 · 
Kvikmyndir
 · 
Menningin
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
11.01.2017 - 14:30.Davíð Kjartan Gestsson.Menningin
Kvikmyndin Hjartasteinn, fyrsta mynd leikstjórans Guðmundar Arnars Guðmundssonar í fullri lengd, verður frumsýnd hér á landi á föstudag eftir frægðarför erlendis á liðnu ári. Myndin fjallar um vináttu tveggja drengja sem upplifa ólgur unglingsáranna í litlu sjávarþorpi á Íslandi. Sagan er innblásin af draumi sem Guðmundur átti um vin sem hafði fallið frá.

„Það er allt að gerast á þessum árum,“ segir Guðmundur, spurður að því hvað heilli hann við þetta tímabil. „Maður var að upplifa fyrsta kossinn, fyrstu kærustuna, fyrstu vinaslitin. Það gerist allt á mjög skömmum tíma. Þrír eða fjórir mánuðir eru eins og nokkur ár. Ég átti frekar dramatísk unglingsár, bæði gagnvart fullorðnum og vinum. Það var svo margt sem sat eftir. Þegar ég var yngri fannst mér fullorðnir ekki átta sig á alvarleika lífsins og gera lítið úr okkar vandamálum sem unglingar.“

Saga Hjartasteins hefur fylgt Guðmundi í langan tíma. „Ég byrjaði að skrifa hana fyrir tíu árum. Ég hafði aldrei skrifað áður og vissi ekki hvort ég gæti það. Þá dreymdi mig draum um vin minn sem bjó í litlu smáþorpi. Hann var látinn og þetta var í fyrsta skipti sem mig dreymdi hann eftir að hann lést. Hann var að sýna mér þorpið, þetta var mjög fallegur symbólískur draumur. Þegar ég vaknaði hugsaði ég að ég ætlaði að skrifa um þetta tímabil og fjölskyldu mína og um hann og mig. Þetta var innblástur minn að sögunni.“

Hjartasteinn hefur fengið góðar viðtökur á erlendum kvikmyndahátíðum og fengið jákvæða dóma í helstu fagtímaritum, þar sem leikhópnum hefur verið hrósað sérstaklega.

Mynd með færslu
 Mynd: Moris Puccio
Leikhópurinn ungi í Hjartasteini. Frá vinstri, Sveinn Sigurbjörnsson, Katla Njálsdóttir, Daniel Hans Erlendsson, Diljá Valsdóttir, Baldur Einarsson, Jónína Þórdís Karlsdóttir, Rán Ragnarsdóttir, Blær Hinriksson, Theodór Pálsson.

Að baki myndarinnar liggur tíu mánaða undirbúningstímabil með leikurunum, „þá fengu krakkarnir að kynnast því sem þau áttu að fara að gera á settinu. Það þurftu allir að samþykkja það áður en allt byrjaði.“ Guðmundur segir að hópurinn, þrátt fyrir ungan aldur, hafi verið metnaðarfullur og ósérhlífinn. „Þetta er eiginlega þeim að þakka.“

Tengdar fréttir

Innlent

Hjartasteinn með þrenn verðlaun í Varsjá

Menningarefni

Segir allar dyr opnast fyrir Hjartasteini

Mynd með færslu
Menningarefni

Íslenskur Hjartasteinn fær prýðilega dóma

Íslenskur Hjartasteinn í Feneyjum