Efast um að ferðamönnum hafi fjölgað

02.07.2017 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Drengsson
Forsvarsmenn rútufyrirtækja efast um að tölur Ferðamálastofu um fjölgun ferðamanna séu réttar. Þeir segja að ferðamennirnir skili sér að minnsta kosti ekki í sama hlutfalli í rúturnar við Leifsstöð og leiða að því líkur að bæði svokallaðir sjálftengifarþegar og útlendingar sem búsettir séu á Íslandi séu teknir með í talningunni.

Fyrstu fimm mánuði ársins fjölgaði ferðamönnum hér á landi um 46,5% samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli. Á vef Túrista kemur fram að þetta sé mun meiri vöxtur en verið hefur á sama tímabili síðustu ár. Ef til vill sé þó ekki allt sem sýnist.

Tvö rútufyrirtæki bjóða upp á sætaferðir milli höfuðborgarinnar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar; Gray Line, sem rekur Airport Express og Kynnisferðir sem reka Flugrútuna. Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, sagði í viðtali við Morgunblaðið að fjölgunar ferðamanna yrði ekki vart í tölum Flugrútunnar. „Undir venjulegum kringumstæðum ætti ávallt sambærilegt hlutfall ferðamanna að nýta Flugrútuna," sagði Kristján.

Samkvæmt upplýsingum frá Gray Line er sömu sögu að segja þar. Allt fram til síðasta árs hafi fjölgun farþega og erlendra ferðamanna hins vegar haldist í hendur en í fyrra varð breyting þar á og í ár hefur bilið breikkað enn meira samkvæmt því sem segir í svari frá Airport Express.

Túristi hefur áður fjallað um að svokölluðum sjálftengifarþegum, þ.e. farþegum sem koma hingað með einu flugfélagi en fljúga samdægurs burt með öðru, hafi fjölgað síðustu misseri og þeir valdi nú meiri skekkju í ferðamannatalningum en áður. Ferðamálastofa og Isavia hafa ákveðið að gera sérstaka úttekt á fjölda þeirra farþega sem millilenda á Keflavíkurflugvelli til þess að skipta þar um flugfélag.

Mynd með færslu
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV