Ed Sheeran misstígur sig í Game of Thrones

18.07.2017 - 11:26
Mynd með færslu
 Mynd: hbo
Þann 16. júlí var 7. þáttaröð Game of Thrones frumsýnd, en þættirnir eru að stóru leyti teknir upp hér á landi. Fantasíuþættirnir hafa frá árinu 2011 fest sig í sessi sem vinsælustu sjónvarpsþættir heims. Ed Sheeran er einn vinsælasti popparinn um þessar mundir og því þótti liggja beint við að fá hann í aukahlutverk í þáttunum. Sú tilraun virðist þó hafa misheppnast.

Enski söngvarinn og lagahöfundurinn Ed Sheeran hefur sannarlega slegið í gegn, ef marka má vinsældarlistana vestanhafs. Í marsmánuði sl. átti hann 16 af 20 vinsælustu lögum Bretlands, en aldrei hefur annað eins gerst í tónlistarsögunni. Í kjölfarið hafa vinsældarlistakerfin verið endurskoðuð til þess að slíkt endurtaki sig ekki, en með nýlegri tilkomu tónlistarstreymisveita á borð við Spotify hafa reikniforsendur listanna breyst.

Áhorfsmet slegið

Sjöundu þáttaraðar Game of Thrones hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu, en áhorfendur hafa beðið eftir nýjum þætti síðan 26. júní 2016. Sló fyrsti þáttur nýjustu seríunnar áhorfsmet á heimsvísu, en 16 milljónir áhorfenda horfðu á þættina með löglegum hætti, og má gefa sér að heildartalan sé talsvert hærri, enda eiga áhorfendur þáttanna met í ólöglegu niðurhali. Gríðarlega virk aðdáendasamfélög eru starfrækt um allan heim, og jafnvel finnast fleiri en eitt slíkt íslenskt á Facebook. Framleiðslan er að auki gríðarlega stór, en hún er oftast keyrð á tveimur stöðum í einu, oftar en ekki norðarlega, ýmist á Íslandi eða Bretlandi, og sunnar í álfunni, á Spáni eða í Króatíu.

Sheeran eyddi Twitter aðganginum

Margir listamenn hafa reynt sig í Game of Thrones og má þar meðal annara nefna íslensku popparana í Of monsters and men. Yfirleitt eru þó hlutverk tónlistarfólks í þáttunum heldur fyrirferðarlítil, og í formi einhverskonar skemmtilegrar viðveru sem aðeins aðdáendur tónlistarinnar tengja við. Því þótti kveða við nýjan tón þegar einn frægasti poppari samtímans, Ed Sheeran, var fenginn í hlutverk í þáttunum. Leikur hann syngjandi hermann í senu á móti leikkonunni Masie Williams, sem fer með hlutverk hinnar ungu Aryu Stark. Hlutverk Ed Sheeran sem er heldur veigalítið í sögunni, fékk þó óeðlilega mikið pláss og var andlit söngvarans síendurtekið haft í rammanum. Hafa aðdáendasamfélög risið upp á afturfæturna og hafa sumir aðdáendur óskað persónu Sheeran dauða á ýmsa vegu, sem einkennir ef til vill sögurnar, sem þekktar eru fyrir mikið og grafískt ofbeldi. Hefur Sheeran ekki átt sjö dagana sæla frá sýningu þáttarins og endaði á því að eyða Twitter aðgangi sínum til þess að fá frið fyrir gagnrýninni. Hér að neðan má sjá frammistöðu Ed Sheeran í þáttunum.

Þættirnir farnir fram úr bókunum

Game of Thrones þættirnir eru miðaldafantasía, byggð á bókum eftir rithöfundinn George R.R. Martin og kom sú fyrsta út árið 1996. Bækurnar eru þó aðeins fimm talsins, þó að þáttaraðirnar séu orðnar sjö, og ein slík túlki hverja bók. Þykir það því einsdæmi að sjónvarpsþættirnir fari fram úr bókunum líkt og hér hefur gerst, en síðasta bók Martin kom út árið 2011. Þó hefur hann komið að handritaskrifum þáttanna með beinum hætti, svo að ekki sé brugðið of mikið frá fyrirhuguðum söguþræði. Þó er sagan í sjónvarpsaðlöguninni á köflum gríðarlega ólík þeirri sem birtist í bókunum, og stórum hliðarlínum hefur verið sleppt eða breytt. Sögunum hefur gjarnan verið líkt við Hringadróttinssögu Tolkiens, en þó þykir áberandi ólíkt hversu margar sterkar og veigamiklar kvenpersónur eru í Game of Thrones.

Útgáfudagur næstu bókar óljós

Mikil eftirvænting ríkir meðal lesenda eftir næstu bók í ritröðinni, The Winds of Winter, en ótal sinnum hafa útgáfudagar verið tilkynntir, sem síðan hefur verið frestað. Ber höfundurinn fyrir sig miklum önnum vegna skrifa sem tengjast sjónvarpsþáttunum, en að auki hefur hann verið heilsulítill. Einnig taka skrifin gríðarlega langan tíma, enda er söguheimurinn bæði ógnarstór og flókinn. Verkið inniheldur ótal sagnfræðilegar vísanir, meðal annars er valdataflið sem er miðja sögunnar að miklu leyti byggt á Rósastríðunum. George R. R. Martin nýtir þann mannauð sem felst í öflugum aðdáendahópum, og hefur haldið gagnvirku sambandi við hörðustu aðdáendur sögunnar með fyrirlestrum og viðveru á samfélagsmiðlum, enda er vafalaust krefjandi fyrir eina manneskju að fylgja heildarverkinu úr garði og vera meðhöfundur vinsælustu sjónvarpsþátta heims, að auki.