Dularfullur leiðtogi Íslamska ríkisins

19.06.2017 - 10:37
Rússnesk yfirvöld segja mögulegt að Abu Bakr al-Baghdadi, æðsti leiðtogi hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Íslamskt ríki, hafi fallið í loftárás í Sýrlandi í lok maí. Ekki eru allir sannfærðir um það, en þetta er ekki í fyrsta sinn sem Baghdadi er talinn af.

Fjallað var um Al-Baghdadi og hryðjuverkasamtök hans í Morgunvaktinni á Rás 1.

Margt er á huldu um ævi Abu Bakr al-Baghdadis. Hann heitir réttu nafni Ibrahim al-Badri og fæddist í borginni Samarra í Írak árið 1971. Ungur flutti hann til höfuðborgarinnar Baghdad að leggja stund á nám í íslamskri guðfræði. 

Hann var bókhneigður og óframfærinn námsmaður, en mjög íhaldssamur í trúnni og varð herskárri með árunum — vildi steypa veraldlegum stjórnvöldum í Írak með vopnavaldi.

Fangelsaður af Bandaríkjamanna

Þegar Bandaríkin réðust inn í Írak árið 2003 var Al-Baghdadi fangelsaður, eins og fleiri sem aðhylltust herskáa hugmyndafræði íslamista, þrátt fyrir að hafa þá ekki framið neinn sérstakan glæp. 

Í fangelsi Bandaríkjahers, Camp Bucca, komst hann í kynni við enn herskárri íslamista og vígamenn, ávann sér virðingu þeirra með þekkingu sinni á guðfræði — og grunnur var lagður að því sem síðar varð Íslamska ríkið.

Kemur sjaldan fram opinberlega 

Abu Bakr al-Baghdadi hefur aðeins einu sinni komið fram opinberlega, í mosku í Mósúl í Írak í júlí 2014. Þá lýsti hann því yfir að hann sjálfur væri kalífi, leiðtogi múslima og arftaki Múhameðs spámanns á jörðu.

Síðan þá hefur hann einungis af og til sent frá sér hljóðupptökur með predíkunum og skilaboðum til fylgismanna sinna og heimsbyggðarinnar.

Síðusta slíka upptakan er frá því í nóvember 2016 — síðan hefur lítið sem ekkert til hans spurts. Hann hefur verið talinn vera á felum einhverstaðar í eyðimörkinni og hugsanlega særður

Hafa misst meira en helming landsvæðis síns

Nú er sótt að Íslamska ríkinu úr öllum áttum. Hart hefur verið barist um Mósúl-borg í Írak undanfarnar vikur og nýlega hófst sókn gegn sýrlensku höfuðvígi þeirra, borginni Raqqa.

Áætlað er að samtökin hafi misst meira en helming af því landsvæði sem þau stjórnuðu á hátindi sínum síðla árs 2014 í Írak og Sýrlandi og sömuleiðis mikið af því landssvæði sem þau réðu yfir annarstaðar, í Líbíu og Nígeríu.